Fjármálasvið
Fjármálasvið miðlar fjármagni með arðbærum og skilvirkum hætti innan Arion banka og sér til þess að lausafjárstaða bankans sé ávallt í samræmi við kröfur stjórnar og eftirlitsaðila. Sviðið útvegar lánsfjármagn á innlendum og erlendum mörkuðum á hagstæðum kjörum sem gera bankanum enn betur kleift að þjónusta viðskiptavini. Fjármálasvið sér einnig um markaðsvakt sem stuðlar að auknum seljanleika hluta- og skuldabréfa á íslenskum verðbréfamarkaði. Fjármálasvið gerir árs- og árshlutareikninga bankans og annast margs konar skýrslugjöf. Þannig stuðlar fjármálasvið að því að stjórn, hinar ýmsu einingar bankans, dótturfélög og bankinn í heild nái hámarksárangri fyrir viðskiptavini, starfsfólk og eigendur. Fjármálasvið annast jafnframt skýrslugjöf til eftirlitsaðila og uppfyllir þannig kröfur sem eru undirstaða starfsleyfis. Þá er það markmið fjármálasviðs að tryggja öllu starfsfólki bankans gott vinnuumhverfi sem styður það í verkefnum þess. Framkvæmdastjóri sviðsins er Stefán Pétursson.
Fjármögnun útvegar stöðuga fjármögnun á hagstæðum kjörum sem styrkir samkeppnishæfni bankans og gerir hann betur í stakk búinn til þess að þjónusta viðskiptavini sína.
Fjárstýring stýrir og miðlar fjármagni með skilvirkum hætti á milli eininga bankans. Deildin er miðstöð alls fjármagns í bankanum og sér um miðlun á innstæðum viðskiptavina, heildsölufjármögnun, gjaldeyri og öðrum fjármálaafurðum. Deildin stýrir einnig lausu fé og viðheldur jafnvægi í rekstri og efnahag bankans í samræmi við áhættuvilja stjórnar og reglur eftirlitsaðila. Fjárstýring sinnir hlutverki sínu á arðbæran og skilvirkan hátt.
Reikningshald sér um gerð árs- og árshlutareikninga og veitir auk þess réttar og tímanlegar upplýsingar sem stuðla að bættum rekstri. Störf deildarinnar miða að því að auka traust eigenda, stjórnar, eftirlitsaðila og almennings.
Hagdeild annast skýrslu- og upplýsingagjöf til eftirlitsaðila en regluleg skil á ýmsum upplýsingum eru ein af forsendum starfsleyfis bankans. Hagdeild styður einnig við ákvarðanatöku í Arion banka með því að veita stjórn og starfsmönnum upplýsingar og gögn.
Kostnaður og launavinnsla heldur utan um rekstrarkostnað bankans og veitir upplýsingar þar um. Deildin sinnir einnig virku kostnaðareftirliti og styður þar með við að kostnaðarhlutfall sé í samræmi við markmið og stuðlar að aukinni kostnaðarvitund innan bankans.
Innkaupastýring hefur það hlutverk að samræma innkaup bankans. Markmiðið með skýrri og öflugri innkaupastýringu er að ná fram umtalsverðri hagræðingu í rekstri. Styrk stýring innkaupa eflir jafnframt samband bankans við birgja hans og tryggir honum bestu kjör.
Fasteignir og rekstur hefur það hlutverk að sjá um rekstur og fjárfestingu í húsnæði bankans sem er samtals um 30 þúsund fermetrar. Deildin sér einnig fullnustueignir og sölu á þeim sem og veitingaþjónustu og aðra þjónustu við starfsfólk og viðskiptavini.
Upplýsingatæknisvið
Í janúar 2017 útvistaði Arion banki rekstri upplýsingatæknikerfa sinna til Origo. Við það tók skipulag upplýsingatæknisviðs breytingum og styður nú betur við stafræna vegferð bankans. Samanstendur sviðið af fjórum deildum: Hugbúnaðarþróun, stafrænni framtíð, tæknistjórn og verkefnastofu. Jafnframt heyrir viðskiptaumsjón, sem áður tilheyrði rekstrarsviði, undir framkvæmdastjóra sviðsins. Framkvæmdastjóri sviðsins er Rakel Óttarsdóttir.
Gríðarlegur hraði og framfarir í stafrænni tækni knýja nú áfram nýsköpun í heiminum sem aldrei fyrr. Bankar, eins og önnur fyrirtæki, þurfa að endurhugsa sína starfsemi og tæknin gegnir þar lykilhlutverki. Banki framtíðarinnar verður ekki eins og bankar eru í dag. Arion banki hefur einsett sér að vera fremsti stafræni bankinn á Íslandi – veita þægilegustu bankaþjónustuna – með því að auka aðgengi viðskiptavina að stafrænum vörum og þjónustu bankans. Upplýsingatæknisvið gegnir lykilhlutverki í að hrinda þessari stefnu í framkvæmd.
Fremsti stafræni bankinn
Arion banki er í dag fremsti stafræni bankinn á Íslandi. Við vinnum hörðum höndum að því að sjálfvirknivæða og einfalda allt verklag þannig að það verði sem fæst handtök í öllum ferlum, bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk bankans. Við nýtum gögn og greiningar til að taka góðar ákvarðanir og vinnum markvisst að því að hanna snjallar og skapandi lausnir sem viðskiptavinum okkar finnst spennandi.
Með tækninni mætum við viðskiptavinum okkar þegar og þar sem þeir óska. Tæknin auðveldar okkur að þekkja viðskiptavini, skilja þeirra þarfir og uppfylla þær. Við erum til staðar fyrir þá sem vilja sinna bankaviðskiptum heiman frá sér, t.d. í gegnum snjallsímann, og við erum til staðar fyrir þá sem vilja koma til okkar og hitta okkur í eigin persónu í einu af fjölmörgum útibúum bankans.
Þægileg bankaþjónusta
Fjölmargar nýjar stafrænar þjónustur voru kynntar á árinu 2017. Á vef bankans er fjöldi nýrra lausna, t.d. geta fyrirtæki stofnað til viðskipta við bankann, hægt er að sækja um íbúðalán, endurfjármagna eldri lán og stunda hlutabréfaviðskipti. Viðskiptavinir geta sjálfir fryst kreditkort í appinu og breytt yfirdrætti og kreditkortaheimildum á einfaldan máta. Á árinu kom Einkaklúbbsapp í stað útprentaðrar tilboðsbókar og hefur appið notið mikilla vinsælda meðal viðskiptavina bankans.
Skilvirkt skipulag verkefna
Á seinni hluta árs voru gerðar breytingar á verklagi á upplýsingatæknisviði. Breytingarnar eiga við öll stærri verkefni og taka mið af því verklagi sem hefur verið viðhaft í verkefnahraðli stafrænnar framtíðar þar sem stafrænar lausnir bankans eru þróaðar.
Þannig eru í dag öll stærri verkefni sviðsins unnin af þverfaglegum teymum sem eru samansett af starfsfólki sem einvörðungu einbeitir sér að verkefni teymisins á verkefnatímanum og er hvert verkefni unnið í fyrirfram skilgreindan tíma. Minni verkefni eru unnin af umbótateymi sviðsins svo önnur verkefnateymi geti einbeitt sér að stærri verkefnum.
Deildir upplýsingatæknisviðs
Hugbúnaðarþróun hannar, þróar, samþættir og viðheldur lausnum með stafræna stefnu bankans að leiðarljósi ásamt því að þróa sterkar grunnstoðir sem framtíðarlausnir bankans byggja á.
Tæknistjórn ber ábyrgð á rekstri og öryggi upplýsingakerfa, daglegri þjónustu við notendur og tengslum við samstarfsaðila. Deildin stýrir öryggi og hönnun lausna, þróun gæðakerfis og vörustjórn kerfa með stafræna stefnu bankans að leiðarljósi.
Stafræn framtíð er verkefnahraðall sem endurhannar viðskiptaferli bankans frá grunni með stafræna stefnu bankans að leiðarljósi. Verkefnin eru unnin af þverfaglegum teymum sem sitja saman og eru alfarið helguð verkefninu á verkefnatímanum.
Verkefnastofa sinnir stýringu þverfaglegra verkefna með stefnu bankans að leiðarljósi. Verkefnin eru unnin af þverfaglegum teymum sem sitja saman og eru alfarið helguð verkefninu á verkefnatímanum.
Viðskiptaumsjón
Viðskiptaumsjón ber ábyrgð á frágangi viðskipta, s.s. útlána, innlána og verðbréfaviðskipta, og skjalastjórnun. Í því felst m.a. að tryggja rétta skráningu í kerfi bankans og fylgni við reglur um útfyllingu, vistun og umsýslu skjala. Megináherslur ársins 2017 voru að auka skilvirkni ferla, styðja við stafrænar lausnir bankans og bæta innra gæðaeftirlit sviðsins ásamt því að samþætta starfsemi skjalastjórnar við viðskiptaumsjón en skjalastjórn bættist í hópinn á fyrri hluta ársins 2017.
Lögfræðisvið
Á lögfræðisviði er lögð áhersla á sjálfstæða lögfræðiráðgjöf, vandaða skjalagerð og faglega innheimtu krafna. Lögð er áhersla á tengsl við aðrar deildir bankans til að tryggja að lögfræðingar komi nægilega snemma að þeim álitaefnum sem til úrlausnar eru. Lögfræðisvið skiptist í fjórar einingar: Endurskipulagningu eigna og málflutning, lögfræðiinnheimtu, lögfræðiráðgjöf og lögfræði- og skjaladeild útlánasviða. Framkvæmdastjóri sviðsins er Jónína S. Lárusdóttir.
Í endurskipulagningu eigna og málflutningi er unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra viðskiptavina sem eru í greiðsluvandræðum, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða lögaðila. Þá er unnið að fullnustu og frágangi krafna Arion banka sem eru í lögfræðilegri innheimtu, s.s. aðför, fullnustu eigna og gjaldþrotaskiptum. Jafnframt er þar sinnt málflutningi fyrir bankann. Deildin hefur umsjón með nauðasamnings- og niðurfellingarnefndum bankans. Í deildinni er enn fremur unnið með fullnustueignir bankans, þ.e. frágangi eftir uppboð og leigusamninga þeim tengdum.
Í lögfræði- og skjaladeild útlánasviða er unnið að ráðgjöf og skjalagerð fyrir útlánasvið bankans auk skjalagerðar fyrir þá lögaðila sem bankinn hefur sérstaka samninga við. Innan deildar eru tveir hópar, annars vegar ráðgjöf og skjalagerð fyrir viðskiptabankasvið vegna einstaklinga og neytendalána og samninga viðskiptabankasviðs, en hins vegar ráðgjöf og lánaskjalagerð vegna fyrirtækja og lögaðila.
Í lögfræðiinnheimtu er unnið að allri innheimtu fyrir bankann; fruminnheimtu, milliinnheimtu, lögfræðiinnheimtu og kröfuvakt. Meðal annars er séð um útsendingu innheimtubréfa, samskipti og samningagerð við viðskiptavini og lögfræðilegar innheimtuaðgerðir með atbeina dómstóla og sýslumanna.
Í lögfræðiráðgjöf er unnið að ráðgjöf fyrir tilteknar deildir bankans, s.s. eignastýringarsvið, markaðsviðskipti, fyrirtækjaráðgjöf, skrifstofu bankastjóra, markaðssvið, fjármálasvið og stoðsvið bankans, auk þess sem veitt er yfirsýn og upplýsingar um nýja löggjöf, dóma, ákvarðanir og fyrirmæli stjórnvalda. Þá annast lögfræðiráðgjöf ráðgjöf á sviði samkeppnismála og skattamála.
Skrifstofa bankastjóra
Undir skrifstofu bankastjóra falla meðal annars, fyrir utan bankastjóra sjálfan, aðstoðarmenn/ritarar, sérfræðingar í viðskiptaþróun, forsvarsmaður Arion banka í nýsköpun og umboðsmaður viðskiptavina. Jafnframt tilheyrir mannauður, markaðsdeild, samskiptasvið, fjárfestatengsl, lánaumsýsla og regluvarsla skrifstofu bankastjóra.
Þannig felast verkefni sviðsins meðal annars í almennri aðstoð við bankastjóra og utanumhaldi vegna stjórnar- og nefndarfunda. Viðskiptaþróun sinnir þróun og stefnumótun bankans til lengri og skemmri tíma og verkefnum á sviði nýsköpunar, eins og Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík. Í verkahring umboðsmanns viðskiptavina er greining og eftirfylgni á málum einstaklinga og fyrirtækja. Stærsti hluti eigna bankans í skráðum og óskráðum félögum fellur undir skrifstofu bankastjóra.
Mannauður er samstilltur og framsækinn hópur sem hefur skýra sýn og þekkingu til að miðla stefnu bankans. Starfsfólk mannauðs veitir ráðgjöf og stuðning við val á starfsfólki, auk þess að efla leiðtogafærni og hæfni starfsfólks. Mannauður styður við starfsþróun, hvetur til stöðugra umbóta og aukinnar starfsánægju. Mannauður er stefnumiðaður samherji sem styður við stefnu bankans með því að tengja saman fólk og lykilferla með upplifun viðskiptavina að leiðarljósi.
Hlutverk markaðsdeildar er að styðja við uppbyggingu langtímaviðskiptasambands við viðskiptavini bankans með viðeigandi markaðssetningu og boðmiðlun. Markaðssetningin er í takt við stefnu og framtíðarsýn bankans og felst í markaðssetningu á vörum og þjónustu, viðburðastjórnun og innra markaðsstarfi ásamt því að hlúa að ímynd og vörumerki bankans.
Samskiptasvið heldur utan um samskipti og almannatengsl bankans gagnvart ytri markhópum ásamt boðskiptum við innri markhópa. Verkefnastjórn samfélagsábyrgðar er hjá samskiptasviði.
Fjárfestatengsl halda utanum samskipti við fjárfesta og sjá um að veita fjárfestum tímanlega réttar og viðeigandi upplýsingar til að auðvelda þeim að skilja starfsemi bankans.
Regluvarsla bankans hefur það hlutverk að tryggja með skilvirkum fyrirbyggjandi aðgerðum að Arion banki starfi í hvívetna í samræmi við lög, reglur og góða viðskiptahætti og stuðla að góðri fyrirtækjamenningu hvað þetta varðar. Nánar um regluvörslu Arion banka hér.
Lánaumsýsla á aðkomu að stærstu lánamálum bankans og er ætlað að tryggja heildaryfirsýn á lánasafn bankans. Lánaumsýsla á fulltrúa í öllum lánanefndum bankans og situr forstöðumaður deildarinnar jafnframt fundi lánanefndar stjórnar. Starfsfólk Lánaumsýslu er annars vegar lánastjórar sem vinna með viðskiptastjórum að greiningu einstakra lánamála og hins vegar sérfræðingar sem leggja fram skriflegar ábendingar um mál sem koma til ákvörðunar í lánanefndum bankans. Deildin kemur að tillögugerð og þróun lánareglna bankans.