Áhættustýringarsvið
Áhættustýringarsvið bankans er sjálfstæð stjórnunareining og ber ábyrgð gagnvart bankastjóra. Framkvæmdastjóri sviðsins er Gísli S. Óttarsson.
Áhættustýringarsvið skiptist í þrjár einingar.
Útlánaeftirlit ber ábyrgð á yfirferð lána með tilliti til niðurfærsluþarfar og tekur ákvarðanir um niðurfærslu. Einingin hefur einnig eftirlit með safnlægri útlánaáhættu í lánasafni bankans, eins og samþjöppun á einstaka lántakendur eða á einstakar atvinnugreinar, auk þess að hafa eftirlit með afskriftum, fjárhagslega tengdum aðilum og stórum áhættuskuldbindingum til fjárhagslega tengdra aðila.
Undir ábyrgðarsvið Efnahagsáhættu fellur markaðsáhætta, lausafjáráhætta, eiginfjárgreining, líkanagerð og framkvæmd álagsprófa í bankanum. Deildin greinir og hefur eftirlit með kerfislægum ójöfnuði og áhættum á efnahagsreikningi bankans. Framkvæmd innra mats á eiginfjárþörf (ICAAP) og lausafjárþörf (ILAAP) bankans er á ábyrgð deildarinnar. Einingin ber ábyrgð á þróun og rekstri lánshæfismatslíkana bankans.
Rekstraráhættudeild tilheyrir annarri varnarlínu og veitir fyrstu varnarlínu stuðning við að stýra áhættu sem tengist daglegum rekstri bankans. Deildin styður svið bankans við innra eftirlit, framkvæmd áhættusjálfsmata, skráningu tapsatburða og gerð verkferla.
Gagnastjóri bankans tilheyrir áhættustýringu en hlutverk hans er að skipuleggja og fylgja eftir umbótum í gagnamálum og stjórnháttum fyrir gögn bankans í heild.
Nánari umfjöllun um áhættustýringu bankans er að finna í umfjöllum um áhættustýringu og í áhættuskýrslu bankans fyrir árið 2017.
Regluvarsla
Regluvarsla er sjálfstæð stjórnunareining sem heyrir undir bankastjóra og starfar samkvæmt erindisbréfi frá stjórn. Regluvörður er Hákon Már Pétursson.
Hlutverk regluvörslu er að tryggja með skilvirkum fyrirbyggjandi aðgerðum að Arion banki starfi í hvívetna í samræmi við lög, reglur og góða viðskiptahætti og stuðla að góðri fyrirtækjamenningu hvað þetta varðar.
- Regluvarsla veitir yfirsýn yfir gildandi lagakröfur og ábyrgð og stuðlar að því að starfsfólk þekki og skilji skyldur sínar og fái viðeigandi fræðslu, ráðgjöf og upplýsingar um þær kröfur sem gerðar eru til verklags hverju sinni
- Regluvarsla stuðlar að því að innra eftirlit sé skilvirkt og að brugðist sé við frávikum
- Regluvarsla stendur vörð um að þjónusta bankans sé ekki misnotuð og gætir þess að bankinn þekki mótaðila sína, eðli sérhvers viðskiptasambands og skyldur sínar þar að lútandi
- Regluvarsla hvetur til gagnsæis og gætir þess að upplýsingagjöf til viðskiptavina, fjárfesta og stjórnvalda sé fullnægjandi
- Regluvarsla hvetur til ábyrgrar meðferðar trúnaðarupplýsinga
Öryggisstjóri er hluti af regluvörslu en starfar sjálfstætt fyrir öryggisnefnd bankans. Hlutverk öryggisstjóra er að hafa eftirlit með því að bankinn uppfylli kröfur um öryggi upplýsinga, gagna, fjármuna og annarra verðmæta. Þór Tjörvi Einarsson er öryggisstjóri bankans.
Innri endurskoðun
Innri endurskoðandi er skipaður af stjórn og heyrir beint undir hana. Stjórn setur innri endurskoðanda erindisbréf sem skilgreinir ábyrgð og umfang vinnu hans. Hlutverk innri endurskoðunar er að veita óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf sem ætlað er að vera virðisaukandi og bæta rekstur bankans. Endurskoðunin nær yfir bankann sjálfan, dótturfélög og lífeyrissjóði í rekstri hans. Lilja Steinþórsdóttir er innri endurskoðandi Arion banka.
Erindisbréf innri endurskoðanda, leiðbeinandi tilmæli FME um störf endurskoðunardeilda fjármálafyrirtækja nr. 3/2008 og alþjóðlegir staðlar um innri endurskoðun móta endurskoðunina. Skoðunum innri endurskoðunar bankans lýkur með endurskoðunarskýrslu þar sem settar eru fram áhættumiðaðar athugasemdir með tímasettum kröfum um úrbætur. Innri endurskoðun fylgir úrbótum eftir ársfjórðungslega.
Umboðsmaður viðskiptavina
Umboðsmaður viðskiptavina er skipaður af og heyrir beint undir bankastjóra. Helgi G. Björnsson er umboðsmaður viðskiptavina Arion banka.
Hlutverk umboðsmanns viðskiptavina er að tryggja sanngirni og hlutlægni við úrvinnslu mála gagnvart viðskiptavinum, koma í veg fyrir mismunun og tryggja að ferli við meðferð mála sé gagnsætt og skriflegt. Umboðsmaður viðskiptavina tók til skoðunar 162 mál á árinu 2017, samanborið við 160 mál árið 2016.