Stefnir hf. er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 347 milljarða króna í virkri stýringu. Félagið er að fullu í eigu Arion banka og tengdra félaga og starfsstöðvar félagsins eru í höfuðstöðvum bankans. Eignir í stýringu félagsins eru í eigu fjölbreytts hóps fjárfesta, allt frá einstaklingum upp í stærstu fagfjárfesta landsins. Eignir sjóðfélaga eru ýmist í verðbréfa-, fjárfestingar- eða fagfjárfestasjóðum, auk þess sem Stefnir hefur gert samninga um stýringu á eignum nokkurra samlagshlutafélaga. Í árslok 2017 voru 18 starfsmenn hjá Stefni.
Eignir í virkri stýringu lækkuðu á árinu um rúman 61 milljarð króna eða úr tæpum 408 milljörðum króna í tæpa 347 milljarða króna. Munar þar mestu um 30 milljarða minnkun fagfjárfestasjóðsins ABMIIF. Aðrar skýringar eru meðal annars útgreiðslur úr sérhæfðum afurðum í tengslum við lok stærri fjárfestingarverkefna, auk innlausna í fjárfestingarsjóðnum Stefnir ÍS-15. Áhersla félagsins á uppbyggingu sérhæfðra fjárfestinga á síðustu árum skilar sér í fjölbreyttari tekjustoðum og hærri tekjuframlegð. Dreifing eignaflokka í stýringu er því góð og tekjusamsetning félagsins í samræmi við markmið stjórnar.
Stefnir – Sparifjársjóður nýr fjárfestingarkostur fyrir einstaklinga og fagfjárfesta
Stefnir hefur verið í fararbroddi við þróun nýrra afurða fyrir viðskiptavini. Breytilegt fjárfestingarumhverfi kallar á að sérfræðingar félagins séu reiðubúnir að mæta breyttum áherslum fjárfesta með nýjum fjárfestingarkostum eða við stýringu sjóða. Á árinu var stofnaður nýr fjárfestingarjóður, Stefnir – Sparifjársjóður, sem fjárfestir í innlánum, víxlum og styttri skuldabréfum. Viðskiptavinir tóku sjóðnum vel og var stærð hans orðin rúmir 5,4 milljarðar króna í árslok 2017.
Stefnir með bestu eignastýringu á Íslandi á sviði skuldabréfa
Stefnir var verðlaunaður á árinu af breska fagtímaritinu World Finance Magazine fyrir bestu eignastýringu á Íslandi á sviði skuldabréfa. Verðlaunin eru viðurkenning á starfsemi fjárfestingarfyrirtækja sem náð hafa miklum árangri í starfi sínu þrátt fyrir áskoranir í síbreytilegu rekstrarumhverfi.
Rafrænar dreifileiðir lykillinn að auknum viðskiptum með sjóði Stefnis
Arion banki hefur á árinu auðveldað viðskiptamönnum sínum að eiga viðskipti með sjóði Stefnis. Nýtt viðmót í netbanka gerir hlutdeildarskírteinishöfum kleift að fylgjast með ávöxtun fjárfestinga sinna og viðskipti með sjóði eru framkvæmd með auðveldum hætti. Sýn á verðbréfasafn er einnig aðgengileg í Arion Appinu sem hefur verið valið besta bankaappið á Íslandi. Áframhaldandi nýsköpun og þróun á þessu sviði verður í fyrirrúmi á næstu misserum.
Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands hefur samfleytt frá árinu 2012 veitt Stefni viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum.
Stefna og stjórnarhættir
Starfsmenn félagsins og stjórn hafa lagt sig fram um að skilgreina kjarnahæfni félagsins og áherslur til næstu ára. Stefna félagsins er skýr og stjórn hefur sett félaginu árangursmarkmið, sem mæld eru með reglubundnum hætti. Stjórn Stefnis hefur tileinkað sér góða stjórnarhætti og hefur einsett sér að stuðla að og styðja við ábyrga hegðun og fyrirtækjamenningu innan Stefnis, til hagsbóta fyrir alla hagsmunaaðila félagsins. Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands hefur samfleytt frá árinu 2012 veitt Stefni viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum. Stefnir var þá fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að hljóta nafnbótina. Stöðugt er unnið að viðhaldi og þróun stjórnarhátta hjá félaginu og er árleg endurnýjun viðurkenningarinnar liður í því ferli.
Stefnir hefur jafnframt árlega hlotið viðurkenningu frá Creditinfo sem eitt af framúrskarandi fyrirtækjum ársins frá árinu 2011 og það er ánægjulegt að félagið teljist til þeirra fyrirtækja sem efla íslenskt atvinnulíf.
Mikil áhersla er lögð á gegnsæi og speglast það meðal annars í mikilli upplýsingagjöf á heimasíðu félagsins.
Félagið birtir árlega á heimasíðu sinni stjórnarháttayfirlýsingu þar sem greint er frá starfsemi félagsins og áherslum til næstu missera. Mikil áhersla er lögð á gegnsæi og speglast það meðal annars í mikilli upplýsingagjöf á heimasíðu félagsins. Sú upplýsingagjöf er víðtækari en lög og reglugerðir mæla fyrir um.
Stefnir leiðandi í framtaksfjárfestingum á Íslandi
Stefnir hefur verið leiðandi í framtaksfjárfestingum og sérhæfðum afurðum á Íslandi um árabil. Þörfin fyrir fjölbreytta fjárfestingarkosti er augljós og hafa afurðir Stefnis mætt þessari eftirspurn með ábyrgum fjárfestingarkostum sem henta eignasöfnum fagfjárfesta. Stefnir rekur og stýrir bæði innlendum og erlendum framtakssjóðum og eru lífeyrissjóðir, tryggingarfélög og önnur fjármálafyrirtæki helstu eigendur sjóðanna. Framtakssjóðurinn SÍA III lauk annarri fjárfestingu sinni með kaupum á 70% hlut í Gámaþjónustunni hf. og SÍA II slhf. afhenti hluthöfum eignarhluti sjóðsins í Skeljungi hf. í nóvember 2017. Þar með lauk fjögurra ára árangursríkri aðkomu sjóðsins að Skeljungi.
Aðgengi að erlendum mörkuðum í gegnum sjóði Stefnis
Sérstaða Stefnis í stýringu erlendra hlutabréfasjóða er umtalsverð meðal innlendra fjármálafyrirtækja. Teymi sérfræðinga sem fylgist með efnahagsþróun og skráðum erlendum fyrirtækjum er reynslumikið og nálgun þess á stýringu sjóða hefur vakið athygli um langt skeið. Nú þegar reglur um fjárfestingu í erlendum fjármálagerningum hafa verið rýmkaðar er tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki að dreifa áhættu með fjárfestingu í erlendum fjármálagerningum. Erlendir sjóðir í stýringu Stefnis eru ákjósanlegur kostur til áhættudreifingar fyrir innlenda fjárfesta og sparifjáreigendur.
Valitor er alþjóðlegt greiðslulausnafyrirtæki sem hjálpar samstarfsaðilum, kaupmönnum og neytendum að inna af hendi og taka við greiðslum. Valitor nýtir sér þrjátíu og fimm ára reynslu til að veita samstarfsaðilum og kaupmönnum um alla Evrópu þjónustu á sviði útgáfu og færsluhirðingar. Alþjóðleg starfsemi fyrirtækisins hefur aukist mikið á undanförnum árum. Tekjur af starfsemi utan Íslands jukust um 50% árið 2017 og eru nú um 70% af heildartekjum Valitor. Heildartekjur fyrirtækisins jukust um 32% milli ára þrátt fyrir styrkingu krónunnar.
Í lok árs 2017 voru starfsmenn Valitor og dótturfyrirtækja þess 360 talsins á sex starfsstöðvum á Íslandi, Bretlandi og Danmörku. Lykilþáttur í velgengi Valitor hefur verið áhersla á þróun eigin hugbúnaðarlausna og vinnslukerfa, bæði fyrir útgáfu og færsluhirðingu, og greiðslugátta fyrir verslanir og vefverslanir. Þetta hefur skapað Valitor sérstöðu á greiðslumiðlunarmarkaði þar sem mikil samkeppni ríkir.
Árið 2017 í hnotskurn
Valitor hélt áfram að framfylgja einbeittri stefnu sinni sem skapar fyrirtækinu sérstöðu á sviði útgáfu og færsluhirðingar. Stefnan felur í sér þróun og vöxt fyrirtækisins í gegnum samstarfsaðila á Íslandi og í Evrópu, heildarþjónustu í færsluhirðingu við kaupmenn á Íslandi og í gegnum dótturfyrirtæki félagsins.
Valitor gerði tvenn stefnumótandi fyrirtækjakaup á árinu.
Valitor gerði tvenn stefnumótandi fyrirtækjakaup á árinu. Í apríl keypti Valitor IPS (International Payments Services Limited), fyrirtæki með höfuðstöðvar í Bretlandi sem sérhæfir sig í að sjá stærri verslunarkeðjum um alla Evrópu fyrir greiðslumiðlunarþjónustu á sölustað. Sölu- og þjónustuhluti IPS hefur verið sameinaður dótturfélaginu AltaPay, sem er vefverslunargátt Valitor. Markmiðið er að veita fyrsta flokks „Omni channel“ greiðslulausnir, hjálpa smásöluaðilum að selja meira með því að veita þeim skýrt yfirlit yfir allar söluleiðir þeirra, þ.e. verslun, vefverslun og síma, og bjóða öllum viðskiptavinum upp á sömu notendaupplifun, óháð því hvaða söluleið þeir velja.
Í júlí keypti Valitor Chip & PIN Solutions, eitt þekktasta og virtasta fyrirtæki Bretlands á sviði kortatengdra greiðslumiðlunarlausna, sem selur litlum og meðalstórum kaupmönnum posa og færsluhirðingarþjónustu. Árið 2014 stofnaði Valitor Markadis til að selja breskum viðskiptavinum greiðslulausnir milliliðalaust. Síðastliðið haust var starfsemi Markadis sameinuð Chip & PIN Solutions. Sameinað fyrirtækið hefur yfir 8.000 viðskiptavini.
Til að greiða fyrir örum vexti sínum hefur Valitor lagt í miklar fjárfestingar til að stækka helstu greiðslumiðlunarkerfi sín.
Til að greiða fyrir örum vexti sínum hefur Valitor lagt í miklar fjárfestingar til að stækka helstu greiðslumiðlunarkerfi sín. Með svipuðum hætti hefur Valitor stöðugt unnið að því að styrkja reksturinn og alþjóðlegan starfsmannahóp. Nokkrir lykilstarfsmenn með alþjóðlega reynslu í greiðslu- og tæknigeiranum voru ráðnir til starfa á árinu.
Fyrirtækið glímdi við nokkrar áskoranir á árinu. Meirihluti tekna Valitor er í erlendum gjaldmiðlum og styrkleiki íslensku krónunnar hafði enn og aftur neikvæð áhrif á tekjur fyrirtækisins á árinu. Enn fremur hafa árlegar launahækkanir á Íslandi undanfarin ár aukið kostnað, sem hefur einnig haft áhrif á afkomu.
Stjórn Valitor samþykkti nýja framtíðarstefnu í desember, þar sem aðaláherslan er lögð á að nýta það samkeppnisforskot sem Valitor hefur í greiðslumiðlun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi, Bretlandi, Írlandi og í Danmörku, sem og „Omni channel“ lausn Valitor fyrir verslunarkeðjur um alla Evrópu.
Aldrei hafa orðið jafnmiklar tækniframfarir á sviði greiðslumiðlunar og á síðustu árum, og þær munu halda áfram að móta og breyta greininni á næstu misserum. Samkeppni hefur aukist og haft lækkandi áhrif á framlegð á öllum mörkuðum. Lagaleg umgjörð og regluverk mótar einnig greinina á marga vegu; endurnýjuð greiðsluþjónustutilskipun ESB (PSD2, Payment Services Directive) og almenna persónuverndarreglugerðin GDPR (General Data Protection Regulation) taka gildi á árinu 2018 og munu knýja enn frekari nýsköpun og hafa áhrif á ýmis hlutverk í virðiskeðju greiðslna og þannig á samkeppnishæfni aðila í greininni. Þessar breytingar munu verða neytendum til hagsbóta.
Stjórn Valitor samþykkti nýja framtíðarstefnu í desember, þar sem aðaláherslan er lögð á að nýta það samkeppnisforskot sem Valitor hefur í greiðslumiðlun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi, Bretlandi, Írlandi og í Danmörku, sem og „Omni channel“ lausn Valitor fyrir verslunarkeðjur um alla Evrópu.
Helstu þættir í stefnu Valitor eru:
- Fjárfesta í vexti – auka vöruþróun, sölu- og markaðsstarfsemi á öllum mörkuðum
- Aukin áhersla á sölu heildarlausna milliliðalaust til kaupmanna í Evrópu
- Þróa og markaðssetja nýjar vörur sem skapa Valitor sérstöðu
- Skara fram úr hvað varðar nánd við viðskiptavini með framúrskarandi þjónustu.
Lykilþáttur í velgengi Valitor hefur verið áhersla á þróun eigin hugbúnaðarlausna og vinnslukerfa og tengdra greiðslulausna, sem skapa fyrirtækinu sérstöðu fyrir kaupmenn og korthafa. Valitor mun halda áfram að auka fjárfestingar sínar í vöruþróun og koma nýjum vörum sem skapa fyrirtækinu sérstöðu á markaði á árinu 2018.
Valitor hefur alltaf lagt áherslu á samfélagsábyrgð, bæði hvað varðar innri og ytri starfsemi. Árið 2016 samdi Valitor við Kolvið um kolefnisjöfnun vegna flugferða og bílanotkunar á vegum fyrirtækisins á komandi árum. Settir hafa verið staðlar um vistvæn innkaup af birgjum og þjónustuveitendum sem stýrast af sjálfbærnisjónarmiðum. Á árinu hóf Valitor samstarf við Klappir grænar lausnir hf. um hugbúnaðarlausn fyrir orkunotkun og kortlagningu umhverfisáhrifa.
Á árinu hélt Valitor áfram að styðja við mikilvæg verkefni í samfélaginu í gegnum samfélagssjóð sinn eins og undanfarin 26 ár.
Fjármálaeftirlitið gerði ítarlega endurskoðun á aðgerðum Valitor gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og komst að þeirri niðurstöðu að þessi mál væru almennt í góðu horfi hjá Valitor og taldi stjórnendur Valitor hafa rétt viðhorf gagnvart eftirliti og leiðsögn.
Með styrkar stoðir, trausta stefnu og getu til að framkvæma hefur Valitor alla burði til að njóta velgengni í framtíðinni.
Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag sem býður hagkvæmar tryggingalausnir á samkeppnishæfu verði fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Fjöldi starfsmanna í árslok 2017 var 94 í 88 stöðugildum og eru viðskiptavinir félagsins liðlega 60.000.
Árið 2017 var viðburðaríkt í starfi Varðar. Eigandaskipti urðu á félaginu haustið 2016 þegar kaup Arion banka gengu endanlega í gegn. Nýliðið ár var því fyrsta starfsárið undir nýju eignarhaldi. Á fyrstu vikum og mánuðum ársins voru strengir stilltir saman með nýjum eiganda, sölusamstarfi komið á og frekari sameiginleg sóknarfæri kortlögð.
Sameining líftryggingafélaganna og sameiginlegur rekstur með Verði skapar sterkari samstæðu og mikil sóknarfæri til framtíðar.
Á fyrsta degi ársins 2017 tók gildi sameining á Okkar líftryggingum og Verði líftryggingum undir merkjum síðarnefnda félagsins. Við sameininguna varð til stærsta líftryggingafélag landsins. Í framhaldi af því var hafist handa við að koma allri starfseminni fyrir á einum stað. Úr varð að starfsfólk sameinaðist í húsnæði Varðar við Borgartún 25. Gera þurfti töluverðar breytingar á húsnæðinu en það gekk vel og sameinaðist starfsfólkið í Borgartúninu fyrri hluta marsmánaðar. Sameiningin og flutningar í framhaldi voru vel undirbúnir og gekk ferlið því vel og hnökralaust fyrir sig. Skipti sköpum hvað starfsfólk var jákvætt fyrir þeim breytingum sem ráðist var í og leiddi það einnig til þess að hópurinn lagaði sig fljótt að nýjum aðstæðum. Sameining líftryggingafélaganna og sameiginlegur rekstur með Verði skapar sterkari samstæðu og mikil sóknarfæri til framtíðar. Í kringum sameininguna skapaðist tækifæri til að styrkja innviði félagsins sem meðal annars gerir því kleift að takast á skilvirkan máta á við þær kröfur sem Solvency II löggjöfinni fylgja.
Á vormánuðum var ráðist í krefjandi uppfærslu á tölvukerfi félagsins þegar innleidd var 2016 útgáfa af NAV-kerfinu. Nýja kerfið er í alla staði nútímalegra en eldri útgáfa en því miður tók nokkurn tíma að ná fullri virkni í einstökum þáttum kerfisins sem varð til þess að tímabundnir hnökrar urðu á þjónustu við viðskiptavini. Ráðin var bót á ástandinu og er virkni kerfisins nú eins og lagt var upp með.
Á undanförnum árum hefur verið unnið ötullega að því að skrá alla vinnuferla í eina heildstæða gæðahandbók. Fyrsta útgáfa handbókarinnar leit dagsins ljós á liðnu ári en um lifandi samantekt er að ræða sem krefst reglulegrar uppfærslu og endurskoðunar. Handbókinni er meðal annars ætlað að tryggja stöðlun og stöðugar umbætur á þjónustu félagsins. Vörður hefur jafnan mælst hátt í þjónustumælingu Gallup, „Íslensku ánægjuvoginni“, og lofar félagið viðskiptavinum sínum að leita ávallt leiða til að bæta þennan lykilþátt starfseminnar.
Vörður hefur skýra sýn í jafnréttismálum og hefur sett sér jafnréttisstefnu sem tryggir jöfn tækifæri og kjör starfsfólks af báðum kynjum. Hvers kyns mismunun á grundvelli kynferðis er í andstöðu við jafnréttisstefnu félagsins sem og jafnréttislög. Vörður hlaut jafnlaunavottun VR á árinu 2013, fyrst allra fjármálafyrirtækja. Frá því ári hefur vottunin verið endurnýjuð árlega af óháðum vottunaraðila.
Í umfjöllun um Vörð í ársskýrslu Arion banka fyrir árið 2016 var greint frá því að efnahagsuppsveifla leiddi oftar en ekki af sér versnandi afkomu vátryggingarekstrar. Á móti gerist það oft að afkoma af fjármálastarfsemi batnar við sömu kringumstæður sem dregur þannig að nokkru úr neikvæðum áhrifum á heildarafkomu. Rekstrarniðurstaða sem fengin er á slíkan hátt er hins vegar ótrygg því fjármunatekjur eru hverfular og er því mikilvægt að halda góðu jafnvægi í báðum þáttum. Þrátt fyrir að tjónatíðni hafi ekki versnað frá lokum árs 2016 versnaði afkoma af vátryggingarekstri engu að síður. Kostnaður við viðgerðir á nýjum ökutækjum hefur hækkað umtalsvert, en versnandi afkomu má þó fyrst og fremst rekja til þeirra launahækkana sem átt hafa sér stað á síðastliðnum árum, en laun eru önnur af tveimur grunnforsendum í uppgjörum líkamstjóna sem gerð eru upp samkvæmt skaðabótalögum. Nær útilokað er að ná jákvæðri afkomu af vátryggingarekstrinum ef ökutækjatryggingar, sem eru stærsti einstaki flokkurinn, eru reknar með tapi. Á sama tíma og afkoma skaðatrygginga var verulega undir væntingum var afkoma af rekstri persónutrygginga hins vegar góð.
Verkefnin fram undan
Leitast verður við að þjóna sístækkandi hópi viðskiptavina með nútímalegum lausnum á sviði stafrænnar tækni og með áframhaldandi þróun á hefðbundnum þjónustuleiðum.
Á hverju ári eru sett metnaðarfull sóknaráform í rekstri. Árið 2018 er engin undantekning. Vörður hefur átt mikilli velgengni að fagna á undanförnum árum. Byggt verður á þeim trausta grunni sem skapaður hefur verið, og leitast verður við að þjóna sístækkandi hópi viðskiptavina með nútímalegum lausnum á sviði stafrænnar tækni og með áframhaldandi þróun á hefðbundnum þjónustuleiðum. Þannig verður reynt að gera viðskiptavinum kleift að eiga samskipti við félagið allan sólarhringinn, allan ársins hring. Það er metnaðarfullt markmið sem vissulega mun taka nokkurn tíma að fullkomna en að því verður ötullega unnið.
Þá má geta þess að unnið er að aðlögun starfseminnar að innleiðingu nýrra persónuverndarlaga en lögin taka gildi í maí næstkomandi. Nýju lögin eru yfirgripsmikil og snerta fjölmarga þætti í daglegum rekstri félagsins. Hópur starfsmanna vinnur að innleiðingunni.
Framtíðarhorfur
Til þess að ná góðri niðurstöðu í rekstri Varðar þarf afkoma ökutækjatrygginga að vera jákvæð. Gripið hefur verið til aðgerða sem ætlað er að bæta afkomuna en viðbúið er að grípa þurfi til frekari úrræða. Fyrirhugaðar breytingar á skaðabótalögum gera stöðuna síðan enn meira krefjandi en gangi tillögur starfshóps eftir munu bætur fyrir líkamstjón hækka mikið og mun það óhjákvæmilega kalla á frekari aðlögun iðgjalda.
Núverandi samsetning á rekstri Varðar og eignarhald skapar félaginu mikil sóknarfæri. Til framtíðar er því ekki óeðlilegt að gera kröfu um að rekstur þess skili besta samsetta hlutfallinu á meðal innlendra vátryggingafélaga.