Við hjá Arion banka berum virðingu fyrir umhverfi okkar og leitumst við að lágmarka neikvæð áhrif starfsemi bankans á náttúruna. Markmið okkar er að umhverfisvitund endurspeglist í rekstri bankans, stjórnun, ákvarðanatöku og daglegum störfum starfsfólks. Við tökum virkan þátt í samfélaginu og leggjum áherslu á jákvæða uppbygginu þess. Þannig sýnum við samfélagsábyrgð í verki.
Markmið okkar er að umhverfisvitund endurspeglist í rekstri bankans, stjórnun, ákvarðanatöku og daglegum störfum starfsfólks.
Stefna Arion banka um samfélagsábyrgð var mótuð árið 2016 en þar eru m.a. skilgreind helstu áhersluatriði og hagsmunaaðilar greindir. Stefnan byggir á þeirri menningu sem skapast hefur innan bankans og því starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum en yfirskrift stefnunnar er Saman látum við góða hluti gerast. Mikilvægi umhverfismála er undirstrikað með skýrum hætti í stefnunni.
Árangur aðgerða Arion banka í umhverfismálum má finna í umhverfisuppgjöri. Gögn og upplýsingar í uppgjörinu gilda fyrir árið 2017 og tengjast meginstarfsemi Arion banka, dótturfélög standa því utan uppgjörsins. Gögn frá árunum 2015 og 2016 eru sett fram til samanburðar.
1.1 Umhverfismarkmið Arion banka
Arion banki ber virðingu fyrir umhverfi sínu og leitast stöðugt við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar. Helstu umhverfismarkmið bankans eru:
- Draga úr sóun
- Flokka úrgang frá bankanum eins og hægt er hverju sinni
- Fara sparlega með orku í starfsemi sinni
- Nýta sér umhverfisvænar lausnir við prentun pappírs með nýrri tækni
- Stefna að aukinni hlutdeild pappírslausra viðskipta
- Hvetja og styðja starfsfólk til að hafa umhverfismál að leiðarljósi
- Velja umhverfisvæna vöru og þjónustu við innkaup þegar hægt er
1.2 Samstarf í umhverfismálum
Árið 2015 undirritaði Arion banki yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um loftslagsmál. Yfirlýsingin fellur vel að umhverfisáherslum Arion banka en með undirskrift sinni skuldbatt bankinn sig til að vinna í eftirfarandi verkefnum:
- Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
- Minnka myndun úrgangs
- Mæla árangurinn
- Gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta
Arion banki hefur gefið út árlega umhverfisskýrslu frá árinu 2016. Skýrslurnar innihalda m.a. umhverfismarkmið bankans og aðgerðaáætlanir til að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar.
1.3 Loftslagsverkefni Arion banka
Loftslagsverkefni Arion banka byggir m.a. á þeirri vinnu sem hefur átt sér stað í umhverfismálum bankans og þeim grunni sem lagður var með áðurnefndri yfirlýsingu um loftslagsmál. Verkefnið er metnaðarfullt og krefst góðs skipulags og stjórnunar til að tryggja árangur.
Líkt og fyrri ár hefur Arion banki lagt sérstaka áherslu á lið 3 í loftslagsyfirlýsingunni, þ.e. að koma upp öflugu upplýsingakerfi til að halda utan um umhverfismál bankans þannig að mælanleiki, gagnsæi og góð upplýsingagjöf sé tryggð. Áfram er unnið að því að tengjast mikilvægum gagnalindum og tryggja stöðugt streymi gagna inn í gagnagrunn umhverfismála.
Loftslagsverkefni Arion banka og önnur viðleitni til að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfið er leið bankans til að vinna að þrettánda markmiði Sameinuðu þjóðanna um verndun jarðar (e. climate action).
2 Áherslur í umhverfismálum
Bankinn hefur ýtt úr vör margs konar verkefnum sem ætlað er að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar.
Hjá Arion banka er lögð áhersla á að tryggja heildstætt yfirlit yfir umhverfisáhrif sem af starfseminni hljótast auk þess sem bankinn hefur ýtt úr vör margs konar verkefnum sem ætlað er að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar. Þar má nefna kaup á rafmagnsbílum fyrir innanbæjarakstur á vinnutíma, innleiðingu á samgöngustefnu fyrir starfsfólk, stuðning við skógrækt, átak í að bæta sorpflokkun og draga úr matarsóun auk átaks til að minnka prentun og draga úr notkun einnota plasts.
Arion banki leggur ríka áherslu á þægilega bankaþjónustu, t.d. með stafrænum lausnum. Sú stefna skipar einnig stóran sess í að draga úr kolefnisspori bankans og viðskiptavina hans, m.a. með minni pappírsnotkun og færri ferðum viðskiptavina til og frá bankaútibúum.
Hér á eftir er fjallað um nokkur af þeim verkefnum og aðgerðum sem tengjast umhverfismarkmiðum Arion banka.
2.1 Flokka úrgang frá bankanum eins og hægt er hverju sinni
Frá árinu 2016 hefur verið unnið að því að auka flokkun og minnka magn heildarúrgangs Arion banka. Í fyrstu var einblínt á höfuðstöðvar og útibú í Borgartúni. Flokkun var bætt umtalsvert á báðum stöðum með nýjum flokkunartunnum fyrir plast, málma og spilliefni. Sorpþjónustuaðili bankans aðstoðaði við skipulagningu flokkunar og endurskoðun sorphirðuáætlunar auk þess að halda vel sóttan fræðslufund fyrir starfsfólk um endurvinnslu.
Í framhaldinu hefur verið unnið að því auka flokkun enn frekar á öðrum starfsstöðvum bankans, þar með talið í þjónusturýmum útibúa bankans. Á árinu 2017 var unnið að því að finna réttu flokkunartunnurnar fyrir þessi rými og var gerð tilraun með nýja tegund. Áfram verður unnið að því á árinu 2018.
Heildarmagn úrgangs dróst lítillega saman milli áranna 2015 og 2016 en jókst nokkuð aftur á árinu 2017, m.a. vegna framkvæmda í nokkrum af útibúum bankans. Á sama tíma hækkar hlutfall flokkaðs úrgangs sem er jákvætt. Þessa þróun má sjá á myndinni hér fyrir neðan en einnig má finna nánari upplýsingar um myndun úrgangs í umhverfisuppgjöri.
Markvisst hefur verið unnið að því draga úr plastnotkun bankans. Meðal annars hefur óendurvinnanlegum kaffimálum, plastglösum, diskum og umbúðum í höfuðstöðvum verið skipt út fyrir lífniðurbrjótanlega (e. compostable) valkosti. Í framhaldinu var útibúum bankans gefinn kostur á að panta sambærileg mál og umbúðir. Þá hefur verið unnið að því að draga úr einnota plastumbúðum í mötuneyti í höfuðstöðvum en í því samhengi var t.d. samið við fjölda birgja um að tryggja að aðföng berist í fjölnota plastbökkum í stað einnota plastumbúða
Plastpokum hjá bankanum hefur verið skipt út fyrir bréfpoka.
Bankinn hefur framleitt umhverfisvæna fjölnota poka fyrir viðskiptavini og starfsfólk en á pokunum er að finna gagnlegar upplýsingar um umhverfisvernd. Með framtakinu er ætlunin að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að hver og einn líti í eigin barm og leggi sitt af mörkum til að stuðla að minni mengun og betri framtíð.
Á árinu 2017 var fjárfest í sérstöku vatnskælikerfi fyrir höfuðstöðvar bankans. Með tilkomu kerfisins er nú með auðveldum hætti hægt að tappa drykkjavatni á glerflöskur sem gerir plastflöskur óþarfar á fundum og öðrum viðburðum. Auk þess hefur plastpokum hjá bankanum verið skipt út fyrir bréfpoka. Þá eru pennar bankans nú framleiddir úr endurunnu plasti.
2.2 Fara sparlega með orku í starfsemi sinni
Raforkunotkun bankans hefur minnkað verulega á síðustu árum, m.a. vegna fækkun fermetra í útibúaneti bankans. Þá hefur átak verið gert í skipta eldri ljósaperum út fyrir nýja LED lýsingu. Í lok árs 2017 hafði um 1.000 eldri perum verið skipt út fyrir LED perur, sem nemur um 10% af lýsingu bankans. Áfram verður unnið að endurskoðun rafmagnsnotkunar bankans með það að markmiði að minnka raforkunotkun enn frekar.
2.3 Eldsneytisnotkun bílaflotans
Stórum hluta eldri bílaflota bankans hefur verið skipt út fyrir nýja rafbíla. Unnið er að því að draga úr eldsneytisnotkun þeirra bíla sem ekki eru knúnir með rafmagni. Í því samhengi tengir rafræn skráning á olíutökum hverrar bifreiðar saman upplýsingar um olíukort, bílnúmer og eldsneytistegund. Gögnunum er streymt inn í umhverfishugbúnað Arion banka þar sem hægt er að fylgjast með eldsneytisnotkun bílaflotans og þeirri losun sem myndast við akstur bifreiðanna í CO2 ígildum.
Eldsneytisnotkun bifreiða jókst lítillega á milli áranna 2015 og 2016 en lækkaði nokkuð á árinu 2017 eins og sést á myndinni. Sjá nánar í umhverfisuppgjöri.
2.4 Nýta umhverfisvænar lausnir við prentun pappírs með nýrri tækni
Á undanförnum árum hefur rík áhersla verið lögð á að draga úr pappírsnotkun bankans. Árið 2012 var gerður samningur við Nýherja, nú Origo, um „rent a prent“ lausn sem gerir Arion banka kleift að stýra aðgangi að öllum prenturum og ljósritunarvélum. Lausnin byggir á fullkomnum hugbúnaði sem krefst þess að starfsfólk staðfesti prentbeiðnir sínar með aðgangskorti við prentara. Rent a prent lausnin hefur skilað sér í töluverðum pappírssparnaði frá innleiðingu árið 2012. Nánari upplýsingar um fjölda prentaðra blaðsíðna má finna í umhverfisuppgjöri en einnig á myndinni hér til hliðar.
Undanfarin tvö ár hefur bankinn ekki prentað út dagatöl eins og venjan var. Segja má að ákvörðunin sé tímanna tákn þar sem aukin tölvu- og snjallsímanotkun hefur það í för með sér að fólk nýtir tæknina sífellt meira til að skipuleggja tímann sinn. Ákvörðunin er einnig í takt við stefnu bankans um að sýna umhverfinu umhyggju og virðingu. Áður prentaði bankinn tugi þúsunda dagatala og var því um verulegan pappírssparnað að ræða.
2.5 Hvetja og styðja starfsfólk til að hafa umhverfismál að leiðarljósi
Með samgöngustefnu sinni leggur Arion banki sitt af mörkum til að bæta heilsu starfsfólks og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá bifreiðum. Markmið samgöngustefnunnar er að auka nýtingu starfsfólks á vistvænum og hagkvæmum ferðamáta. Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta til og frá vinnu annan en að ferðast í einkabílum, s.s. að ganga, hjóla, fá far með öðrum eða ferðast með almenningssamgöngum. Til að fylgja stefnunni eftir leggur Arion banki áherslu á eftirfarandi atriði:
- Arion banki hvetur starfsfólk sitt til að nota almenningssamgöngur til og frá vinnu
- Arion banki gerir samgöngusamning við þá starfsmenn sem nota vistvænan ferðamáta
- Samgöngustyrkur er greiddur út mánaðarlega með launum ef vistvænn ferðamáti er notaður minnst fjórum sinnum í viku
- Arion banki kappkostar að tryggja góða aðstöðu á vinnustað fyrir þá sem stunda vistvænan ferðamáta
- Arion banki greiðir leigubílakostnað í neyðartilvikum á vinnutíma fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar vistvænan ferðamáta
- Þegar pantaðir eru leigu- eða bílaleigubílar skal óskað eftir vistvænum bílum
- Arion banki hvetur starfsfólk til að fjölga síma- og fjarfundum eins og kostur er
Ferðavenjur starfsfólks hafa ekki verið kannaðar með markvissum hætti en fjöldi umsókna um samgöngustyrk gefur ákveðnar vísbendingar. Samgöngustyrkir hafa verið veittir frá árinu 2012. Samið hefur verið við þjónustuaðila um að senda vistvæna leigubíla í allar ferðir á vegum bankans, þegar þeir eru tiltækir. Unnið er að að því að fá enn frekari upplýsingar um umfang og mengun sem af þessari þjónustu hlýst.
Arion banki leggur áherslu á það að fá fullt yfirlit yfir kolefnisspor vegna viðskiptaferða bæða innan- og utanlands að meðtöldu flugi. Frá árinu 2016 hefur verið unnið að því að draga úr fjölda flugferða og nýta þess í stað fjarfundarbúnað bankans. Verkefnið hefur skilað góðum árangri en heildarfjöldi floginna kílómetra vegna ferða til útlanda dróst saman um 46% árið 2016 m.v. árið 2015. Flugferðum fjölgaði aftur árið 2017 en áfram verður unnið að því að fækka flugferðum og fá enn betri yfirsýn yfir flug á vegum bankans.
Reglulega stendur Arion banka fyrir námskeiðum og annars konar fræðslu fyrir starfsfólk um málefni tengd umhverfi og umhverfisvernd.
Reglulega stendur Arion banka fyrir námskeiðum og annars konar fræðslu fyrir starfsfólk um málefni tengd umhverfi og umhverfisvernd auk þess að hvetja til þátttöku í ýmsum verkefnum. Sem dæmi um þetta má nefna námskeið bankans um flokkun og vistakstur auk hvatningar til starfsfólks bankans um þátttöku í árvekniátakinu Plastlaus september.
2.6 Velja umhverfisvæna vöru/þjónustu þegar hægt er
ISS Ísland og Hreint ræsting sjá um þrif fyrir Arion banka um land allt. Bæði þessi fyrirtæki hafa skýra stefnu um umhverfis- og gæðamál og hafa hlotið Svansvottun fyrir sína starfsemi.
Nýtt birgjamat var unnið á árinu 2017 þar sem mat er lagt á stefnu birgja í samfélags- og umhverfismálum. Matinu er ætlað að meta áhrif innkaupa bankans á samfélag og umhverfi auk annarra þátta sem bankinn horfir til við mat á birgjum. Þar er m.a. horft til þess hvort viðkomandi fyrirtæki hafi sett sér stefnu í umhverfis- og jafnréttismálum og hvort unnið sé að því að draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi fyrirtækisins á umhverfið.
2.7 Stefna að aukinni hlutdeild pappírslausra viðskipta
Arion banki hefur sett sér það markmið að vera fremsti stafræni bankinn á Íslandi. Bankinn ætlar þannig að auka aðgengi viðskiptavina að stafrænum vörum og þjónustu. Áherslur bankans á stafræna þjónustu og umhverfisvernd eiga góða samleið þar sem stafræn þjónusta dregur verulega úr pappírsnotkun auk þess sem viðskiptavinir hafa möguleika á að sinna bankaviðskiptum sínum þegar og þar sem þeim hentar án ferðalaga í bankaútibú. Þá hvetur Arion banki viðskiptavini sína til að afpanta útprentun þeirra yfirlita, reikninga og annars sem hægt er.
Nánari upplýsingar um stafræna þjónustu Arion banka má finna á vefsíðu Arion banka og í umfjöllun um þægilegri bankaþjónustu í ársskýrslu fyrir árið 2017.
2.8 Draga úr sóun
Stór hluti af þeim verkefnum sem Arion banki sinnir á sviði samfélagsábyrgðar og umhverfisverndar dregur úr sóun af ýmsum toga, m.a. með minni úrgangi, minni orkunotkun og fleira. Til viðbótar má nefna metnaðarfullt verkefni bankans við að draga úr matarsóun í höfuðstöðvum og útibúi bankans í Borgartúni.
Með markvissum aðgerðum hefur verið vakin athygli á mikilvægi þess að draga úr matarsóun.
Með markvissum aðgerðum hefur verið vakin athygli á mikilvægi þess að draga úr matarsóun. Meðal annars hafa reglulega verið birtar fréttir af árangri átaksins á innraneti bankans og skilaboð og myndskreytingar prýða mötuneyti. Með hvatningu og þeirri áherslu á að hafa árangurinn sýnilegan hefur átakið skilað góðum árangri en matarsóun hefur dregist töluvert saman frá því að mælingar hófust í apríl 2016.
Könnun sem gerð var meðal starfsfólks til að kanna áhrif átaksins sýndi að 59% starfsfólks í höfuðstöðvum segjast fá sér minna á diskinn eftir að átak um að draga úr matarsóun hófst, 9% starfsfólks segjast borða meira til að klára af disknum en tæplega þriðjungur taldi átakið ekki hafa haft áhrif á hegðun sína og venjur.
Aðgerðir til að draga úr matarsóun starfsfólks tengjast því góða innra starfi í eldhúsi höfuðstöðva bankans sem fram hefur farið undanfarin ár. Mikil áhersla hefur verið lögð á að haga innkaupum mötuneytisins með þeim hætti að umframmagn aðfanga er lágmarkað en auk þess eru aðföng nýtt eftir fremsta megni, svo sem með nýtingu á afskurði. Hráefni sem ekki nýtist strax til matseldar er merkt, snöggfryst með viðeigandi búnaði og nýtt síðar með skipulögðum hætti.
Meðalmatarsóun í höfuðstöðvum Arion banka lækkaði úr 279 kg á mánuði árið 2016 í 234 kg á mánuði árið 2017. Starfsfólk Arion banka fagnar þeim árangri en ljóst er að áfram þarf að vinna ötullega að þessum málaflokki enda sveiflast matarsóun nokkuð á milli mánaða eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Á árinu 2017 hófst undirbúningur við útfærslu sambærilegs verkefnis í þeim útibúum bankans þar sem mötuneyti er til staðar. Áfram verður unnið að því á árinu 2018.
3 Mótvægisaðgerðir
Arion banki og forverar hans hafa til margra ára stutt við bakið á Skógræktarfélagi Íslands. Stuðningurinn hefur meðal annars farið til ræktunar skóga auk stuðnings við einstök verkefni sem miða að því að bæta aðgengi almennings að skógræktarsvæðum, aukinni fræðslu og fegrun umhverfis. Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við Arion banka, útnefnir árlega „Tré ársins“ en útnefningunni er ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt. Árið 2017 studdi Arion banki verkefnið „Skógarvist, skógargátt og lýðheilsa“ sem Skógræktarfélag Íslands stendur fyrir. Verkefninu er ætlað að auka enn frekar þekkingu almennings á skógum, bæta aðgengi að upplýsingum og auka útivistarmöguleika í skóglendi landsins. Þá mun bankinn einnig setja fjármuni í skógrækt við Úlfljótsvatn á vegum Skógræktarfélagsins en árangurinn er talinn fram í umhverfisuppgjöri ársins 2017.4 Aðgerðaáætlun
4.1 Innleiðing á rafrænum umhverfishugbúnaði
Haldið verður áfram að tryggja bæði mælanleika á umhverfisáhrifum allra rekstrareininga í virðiskeðjunni með rafrænni gagnasöfnum og reglulegri upplýsingagjöf til stjórnenda. Heildstæður umhverfishugbúnaður hefur verið tengdur öllum helstu gagnalindum. Unnið verður áfram að því að tengjast rafrænum gagnalindum frá flugfélögum, leigubílastöðvum og Rent a prent. Stefnt er á að gögnum um bílaleigubíla, innanlandsflug og gagnaeyðingu verði streymt inn í gagnagrunn umhverfismála á árinu.
4.2 Frekari olíusparnaður
Áfram verður stutt við notkun rafmagnsbíla hjá Arion banka og þess gætt að öðrum tegundum ökutækja verði ekki fjölgað. Ólíkir möguleikar hvað varðar hleðslustöðvar fyrir starfsfólk og viðskiptavini verða skoðaðir. Þá verður áfram unnið að því að ýta undir notkun starfsfólks á almenningssamgöngum og öðrum vistvænni samgöngum, m.a. með samgöngustyrkjum. Með þessu er unnið að því að minnka losun í umfangi 1 og umfangi 3.
4.3 Dregið úr raforkunotkun á starfsstöðvum
Haldið verður áfram að draga úr raforkunotkun bankans en árið 2016 hófst vinna við að endurskoða lýsingu í höfuðstöðvum og útibúum. Áfram verður unnið að því að skipta hefðbundnum ljósaperum út fyrir LED-ljósaperur en nú þegar hefur um 1.000 hefðbundnum ljósaperum verið skipt út fyrir LED-perur. Áætlað er að þetta verkefni geti sparað umtalsverða orku.
4.4 Flug starfsfólks
Unnið er að því að streyma upplýsingum um vinnuferðir innan- og utanlands í gagnagrunn umhverfismála. Upplýsingarnar bætast við umfang 3 í umhverfisuppgjöri bankans. Góður árangur náðist í að draga úr flugsamgöngum milli landa árið 2016 en flugferðum fjölgaði aftur nokkuð árið 2017. Áfram verður unnið að því að draga úr flugsamgöngum.
4.5 Dregið úr notkun einnota plasts
Áfram verða ritföng og rekstrarvara bankans til sérstakrar skoðunar en stefnt skal að því að draga enn frekar úr notkun einnota plasts.
4.6 Birting umhverfisupplýsinga
Arion banki mun áfram birta upplýsingar um kolefnisspor bankans í umhverfisuppgjöri auk þess sem upplýsingar um loftslagsmarkmið verða aðgengilegar fyrir almenning í samræmi við loftslagsyfirlýsinguna. Þá verður upplýsingum um pappírsnotkun reglulega miðlað til starfsfólks.
4.7 Umbætur í sorpflokkun
Áfram verður unnið að umbótum í sorpflokkun á starfsstöðvum félagsins með sérstakri áherslu á útibú bankans. Unnið verður að eftirfarandi verkefnum:
- Innleiðingu sorpflokkunar í útibúum bankans skal lokið á árinu auk þess sem skoðað verður hvernig hægt er að mæla magn sorps sem fellur til í útibúum þar sem sorphirða er sameiginleg með öðrum félögum.
- Unnið verður að því að setja upplýsingar um gagnaeyðingu inn í miðlægt kerfi og draga úr pappír sem sendur er til gagnaeyðslu frá höfuðstöðvum félagsins.
- Skoðað hvort draga megi úr póstsendingum.
4.8 Nýtt birgjamat
Nýtt birgjamat var unnið á árinu 2017. Á árinu 2018 verður því fylgt eftir, fylgst verður með niðurstöðum þess og áhrifum og mat lagt á hvort frekari endurskoðunar sé þörf. Nýju birgjamati er sérstaklega ætlað að meta hegðun birgja og áhrif innkaupa bankans á samfélag og umhverfi auk annarra þátta sem bankinn horfir til við mat á birgjum.
5 Umhverfisuppgjör
Á árinu 2017 var mikil vinna lögð í að efla og fjölga gagnapípum í umhverfisstjórnunarkerfinu Klappir Core og þannig fækka þeim upplýsingum í umhverfisuppgjörinu sem byggðust á handvirkum skráningum. Er þetta gert til að tryggja rekjanleika upplýsinga frá upptöku gagnastraums fram í framenda Klappir Core. Í framhaldi af þessari vinnu voru árin 2015 og 2016 endurreiknuð og sett fram í neðangreindu uppgjöri. Af þessu hlýst ákveðið misræmi ef uppgjör þetta er borið saman við fyrri umhverfisskýrslur. Þá skal sá fyrirvari settur varðandi raforkunotkun að í einhverjum tilfellum kann álestri af mælum að vera ólokið sem kann að útskýra mikla lækkun í raforkunotkun á milli áranna 2016 og 2017 en gera má ráð fyrir að sú lækkun gangi að einhverju leyti til baka við álestur.
6 Aðferðafræði
Árið 2016 innleiddi Arion banki hugbúnað sem safnar mæligildum frá hverri rekstrareiningu og streymir þeim í miðlægan gagnagrunn fyrir umhverfismál. Í gagnagrunninum eru gögnin samtvinnuð, losun gróðurhúsalofttegunda reiknuð og greiningar á kolefnisspori fyrirtækisins framkvæmdar.
Upplýsingarnar eru birtar í notendaviðmóti hugbúnaðarins sem hannað er til að gefa góða yfirsýn yfir umhverfismálin og ýmsa rekstrarþætti og þannig aðstoða stjórnendur við að ná fram árangri í umhverfismálum og aukinni rekstrarhagræðingu. Innleiðingin hefur gengið samkvæmt áætlun. Gögn frá íslensku olíufélögunum streyma í gagnagrunn umhverfismála auk upplýsinga um magn og tegund sorps sem sótt er í starfsstöðvar Arion banka.
Gögn um rafmagnsnotkun streyma frá öllum útibúum og öðrum fasteignum félagsins í gagnagrunninn. Áfram verður unnið að því að streyma fleiri atriðum inn í grunninn, t.d. varðandi gagnaeyðingu, leigubílanotkun og póstsendingar á vegum bankans. Þá verður áfram unnið að því afla upplýsinga frá erlendum flugfélögum.
Við útreikninga á umhverfisuppgjöri Arion banka er stuðst við „The Greenhouse Gas Protocol“ sem er stöðluð aðferðafræði sem innleidd hefur verið af fjölda fyrirtækja um allan heim með góðum árangri. Arion banki hefur lagt áherslu á að loftslagsverkefnið sé unnið innan ramma þeirra innlendu og alþjóðlegu laga og reglugerða sem snúa að umhverfismálum.
Á myndinni hér fyrir neðan er aðferðafræðinni lýst en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) eigi sér stað í þremur þrepum. Í megindráttum myndast losun vegna flutnings á aðföngum til fyrirtækis, vegna eigin starfsemi fyrirtækis og vegna flutnings á vörum og þjónustu frá fyrirtæki. Þrepin innihalda þrjár tegundir umfanga sem skiptast í bein og óbein áhrif.
Umfang 1 inniheldur losun sem til fellur vegna eigin starfsemi fyrirtækis. Í tilfelli Arion banka er um að ræða rekstur á eigin húsnæði og farartækjum bankans. Losun af þessu tagi telst til beinna áhrifa af starfsemi fyrirtækja.
Umfang 2 inniheldur losun vegna rafmagnsnotkunar og húshitunar. Losun af þessu tagi telst til óbeinna áhrifa af starfsemi fyrirtækis.
Umfang 3 telst til óbeinna áhrifa af starfsemi fyrirtækis. Í tilfelli Arion banka er hér um að ræða ýmsa sorphirðu við bankann og viðskiptaferðir innan og utanlands. Unnið verður í því að ná sífellt betur utan um aðra þætti sem falla undir umfang 3, svo sem akstur starfsmanna til og frá vinnu.
Helstu gróðurhúsalofttegundir sem um ræðir eru: koltvísýringur (CO2), metan (CH4), nituroxíð (N2O), vetnis-flúor-kolefnissambönd (HFC), fjöl-flúor kolefnissambönd (PFC) og brennisteinshexaflúoríð (SF6). Gróðurhúsalofttegundirnar hafa ólíkt vægi og því eru þær umreiknaðar í einn kolefnisstuðul eða CO2-ígildi til að fá heildstæða mynd af losun.