Gögn og upplýsingar birtar í samantekt á ófjárhagslegum mælikvörðum Arion banka gilda fyrir árið 2017 og tengjast meginstarfsemi Arion banka. Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun um nokkur þessara atriða en í yfirliti ófjárhagslegra mælikvarða má sjá heildstæða framsetningu allra mælikvarða. Þar eru gögn frá árunum 2015 og 2016 sett fram til samanburðar.
Samfélagsábyrgð
Arion banki sýnir samfélagsábyrgð í verki með því að gera viðskiptavinum gagn og sinna hlutverki sínu sem fjármálafyrirtæki af kostgæfni og ábyrgð.
Starfsfólk Arion banka leggur sig fram um að byggja upp góðan banka sem starfar með ábyrgum hætti og veitir viðskiptavinum sínum góða þjónustu. Okkar hlutverk er að hjálpa viðskiptavinum, einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum að ná sínum markmiðum. Þannig sýnir Arion banki samfélagsábyrgð í verki fyrst og fremst með því að gera viðskiptavinum gagn og sinna hlutverki sínu sem fjármálafyrirtæki af kostgæfni og ábyrgð.
Á árinu 2016 var mótuð ný stefna um samfélagsábyrgð hjá Arion banka og helstu áhersluatriði skilgreind sem og hagsmunaaðilar. Nýja stefnan byggir á þeirri menningu sem skapast hefur innan bankans og því starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum, m.a. í tengslum við fjármálafræðslu, nýsköpun og þægilegri bankaþjónustu. Yfirskrift stefnunnar er Saman látum við góða hluti gerast.
Nánar má lesa um samfélagsábyrgð Arion banka og helstu áherslur hér.
Umhverfisáhrif og markmið í umhverfismálum
Arion banki leitast við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar. Kjarnastarfsemi Arion banka snýst um að veita alhliða bankaþjónustu til fyrirtækja og einstaklinga. Þjónustan fer fram víðs vegar um landið og er þess eðlis að hún skapar ekki lagalega ábyrgð vegna umhverfisáhrifa. Arion banki leggur engu að síður áherslu á virðingu fyrir umhverfinu og að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar.
Ítarlega umfjöllun um umhverfisáhrif af starfsemi Arion banka auk upplýsinga um helstu verkefni, árangur og markmið má finna í umhverfisskýrslu bankans.
Launahlutföll
Markmið bankans er að störf hjá bankanum séu eftirsóknarverð í augum hæfra einstaklinga.
Meginsjónarmið varðandi kjör starfsfólks Arion banka er að bjóða á hverjum tíma samkeppnishæf laun til að bankinn geti laðað til sín og haldið í framúrskarandi starfsfólk. Jafnframt er markmið bankans að tryggja að störf hjá bankanum séu eftirsóknarverð í augum hæfra einstaklinga. Við mörkun starfskjarastefnu bankans skal haft að leiðarljósi að hún stuðli ekki að óeðlilegri áhættutöku heldur hvetji til þess að langtímasjónarmiða sé gætt og heilbrigður rekstur bankans tryggður. Starfskjarastefnan er liður í að gæta langtímahagsmuna eigenda bankans, starfsfólks, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila með skipulegum og gagnsæjum hætti.
Í samræmi við 79. gr. a. laga nr. 2/1995, um hlutafélög og reglur um góða stjórnarhætti samþykkir stjórn Arion banka starfskjarastefnu bankans, sem varðar laun og aðrar greiðslur til stjórnarmanna, bankastjóra, framkvæmdastjóra, regluvarðar og innri endurskoðanda. Starfskjarastefnan er endurskoðuð árlega og borin undir aðalfund til samþykktar eða synjunar.
Sjá nánari upplýsingar um starfskjarastefnu Arion banka.
Upplýsingar um laun eftir kyni, starfsmannaveltu, jafnræði og margbreytileika, jafnrétti, hlutfall fastráðinna og fleira má finna hér fyrir neðan, í yfirliti ófjárhagslegra mælikvarða.
Mannréttindi, barna- og nauðungarvinna
Hvers kyns mismunun á grundvelli kynferðis er í andstöðu við jafnréttisstefnu bankans.
Réttindi starfsfólks eru virt í samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar. Engin börn starfa hjá Arion banka.
Arion banki virðir mannréttindi í samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar. Arion banki hefur sett sér skýra stefnu um að tryggja jöfn tækifæri og kjör starfsfólks af báðum kynjum. Hvers kyns mismunun á grundvelli kynferðis er í andstöðu við jafnréttisstefnu bankans sem og jafnréttislög.
Í lok árs 2016 varð Arion banki aðili að UN Global Compact, alþjóðlegri yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um innleiðingu ábyrgra starfshátta. Með þátttökunni skuldbatt bankinn sig til þess að vinna að tíu grundvallarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna sem varða samfélagsábyrgð.
Aðgreining valds
Bankastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri bankans og stýrir bankanum ásamt framkvæmdastjórn í samræmi við stefnu stjórnar. Bankastjóri veitir stjórn skýrslur um rekstur og fjárhag bankans og öll mikilvæg atriði sem geta haft áhrif á rekstur og efnahag bankans. Um ábyrgð og skyldur bankastjóra er að öðru leyti vísað til VII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, og IX. kafla laga um hlutafélög. Starfsskyldur bankastjóra og ábyrgð hans taka mið af því lagaumhverfi sem um bankann gildir á hverjum tíma og þeim reglum sem stjórn bankans kann að setja.
Sjá nánar í stjórnarháttayfirlýsingu Arion banka.
Aðgerðir gegn spillingu og mútum
Arion banki leggur ríka áherslu á að fyrirbyggja fjármunabrot og þau skaðlegu áhrif sem þau geta haft á viðskiptavini, rekstur bankans og samfélag okkar. Í þessum tilgangi veitir bankinn starfsfólki viðeigandi þjálfun og fræðslu, viðhefur skilvirkt eftirlit og á gott samstarf við löggæsluyfirvöld. Bankinn er einnig meðvitaður um hættu á hagsmunaárekstrum sem óhjákvæmilega fylgir starfseminni og hefur gripið til sérstakra ráðstafana til að fyrirbyggja að hagsmunaárekstrar skaði hagsmuni viðskiptavina.
Bankinn leggur sérstaka áherslu á aðgerðir til að fyrirbyggja:
- Peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og brot gegn viðskiptaþvingunum
- Hagsmunaárekstra
- Markaðsmisnotkun og innherjasvik
- Sviksemi og spillingu
Nánari upplýsingar má finna í umfjöllun um ábyrga og arðsama viðskiptahætti.
Gagnsæi skatta og gjalda
Arion banki gerir grein fyrir fjárhagslegri afkomu á grundvelli laga um ársreikninga og IFRS. Sjá upplýsingar um skattgreiðslur og önnur gjöld sem bankinn greiðir hér.
Endurskoðun og áreiðanleiki gagna
Starfsfólk Arion banka leggur áherslu á að samfélagsábyrgð sé hluti af daglegri starfsemi bankans, ákvarðanatöku og ferlum. Í stað þess að útbúa sérstaka skýrslu um samfélagsábyrgð Arion banka er fjallað um málefnið í ársskýrslu bankans. Þar er meðal annars að finna umfjöllun um samfélagsábyrgð og sérstaka umhverfisskýrslu fyrir árið 2017 auk þessarar samantektar um ófjárhagslegar upplýsingar bankans.
Vinna við umhverfisskýrslu og samantekt ófjárhagslegra upplýsinga fyrir árið 2017 var í samstarfi við íslenska nýsköpunarfyrirtækið Klappir Grænar Lausnir hf. Klappir sérhæfa sig í ráðgjöf og tæknilegum vef- og viðskiptalausnum fyrir þætti sem falla undir samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri skipulagsheilda. Slík aðstoð frá þriðja aðila tryggir betur áreiðanleika og gæði þeirra gagna sem sett eru fram.
Yfirlit ófjárhagslegra mælikvarða
Skýringar á tilvísunum
- GRI stendur fyrir Global Reporting Intiative. Aðferð GRI hjálpar fyrirtækjum, stjórnvöldum og öðrum stofnunum að greina, safna og birta umhverfis-, félags- og stjórnarháttaskýrslu (ESG) í skilgreindum ramma. Skýrsla þessi fylgir GRI-rammanum um hvernig skuli birta þessar upplýsingar á skýran og sambærilegan hátt. Skýrslan tekur mið af aðferðafræði GRI með viðeigandi frammistöðuvísum. Sjá nánar á vef GRI.
- SDG er stytting á Sustainable Development Goals. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru alhliða aðgerð til að binda enda á fátækt, vernda jörðina og tryggja að allir njóti friðs og velmegunar. Skýrslan tekur mið af heimsmarkmiðunum. Sjá nánar á vef UN SDG.
- UNGC eða United Nations Global Compact. Með þátttöku í Global Compact skuldbinda fyrirtæki eða stofnanir sig til þess að vinna að tíu grundvallarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna, er varða samfélagslega ábyrgð og styðja helstu markmið Sameinuðu þjóðanna. Sjá nánar hér.
- E, S og G ásamt tölustöfum eru vísanir í atriði tengd umhverfi (e. environment), samfélagi (e. society) og stjórnarháttum (e. governance) sem kveðið er á um í leiðbeiningum Nasdaq á Norðurlöndunum. Sjá nánar á vef Nasdaq.