Hagnaður samstæðu Arion banka á árinu 2017 nam 14,4 milljörðum króna samanborið við 21,7 milljarða króna árið 2016. Arðsemi eigin fjár var 6,6% en var 10,5% á árinu 2016.
Hagnaður samstæðunnar lækkar milli ára, einkum vegna einskiptisliða í hreinum fjármunatekjum, hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga og hreinni virðisbreytingu útlána en til hækkunar á móti má nefna einskiptislækkun kostnaðar vegna bakfærslu á skuldbindingu gagnvart Tryggingasjóði innstæðueigenda frá fyrri árum.
Rekstrartekjur
Rekstrartekjur námu 53,4 milljörðum króna, samanborið við 54,5 milljarða króna 2016. Hreinar þóknanatekjur og hreinar tekjur af tryggingum jukust nokkuð milli ára og vaxtatekjur stóðu í stað. Hins vegar hefur niðurfærsla á fjárfestingu bankans í United Silicon umtalsverð áhrif á rekstrartekjur ársins. Annars vegar gætir neikvæðra áhrifa hennar á hreinar fjármunatekjur og hins vegar á hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga samtals 1,9 milljarðar króna.
Hreinar vaxtatekjur eru svipaðar milli ára en vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna nam 2,9% á árinu 2017, samanborið við 3,1% árið 2016. Vaxtaberandi eignir aukast um 96 milljarða króna frá árslokum 2016 en vegna mikils lausafjár í erlendri mynt, sem ber lága vexti, og lægri verðbólgu á árinu 2017 samanborið við fyrra ár haldast hreinar vaxtatekjur nánast óbreyttar.
Hreinar þóknanatekjur hækka um 10% milli ára, einkum vegna aukinna umsvifa í greiðslukortum og greiðslulausnum sem hafa aukist um 16% milli ára og aukinna umsvifa í lánum, bæði nýjar lánveitingar og uppgreiðslur. Einnig hafa þóknanatekjur tengdar ferðamönnum, t.d. vegna gjaldeyrisviðskipta, aukist nokkuð á liðnum árum. Aðrar þóknanatekjur standa í stað eða hækka lítillega frá fyrra ári.
Hreinar fjármunatekjur námu 4.091 milljónum króna, samanborið við 5.162 milljónir króna 2016. Ágæt afkoma af hlutabréfum skýrir að mestu jákvæðar fjármunatekjur á árinu 2017 en á árinu 2016 var það einkum hagnaður af sölu eignarhlutar í Visa Europe sem skýrði jákvæðar fjármunatekjur. Fjárfesting bankans í hlutabréfum og skuldabréfum tengdum United Silicon hefur neikvæð áhrif á hreinar fjármunatekjur ársins en heildaráhrifin nema 965 milljónum króna.
Hreinar tekjur af tryggingum námu 2.093 milljónum króna, samanborið við 1.396 milljón króna árið 2016. Aukningin er einkum tilkomin vegna kaupa Arion banka á tryggingafélaginu Verði í lok september 2016 sem og jákvæðrar þróunar tryggingastarfseminnar með samþættingu sölu í útibúaneti bankans.
Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga og hrein virðisbreyting var neikvæð um 925 milljónir króna, samanborið við 908 milljóna króna hagnað árið 2016. Meginskýringin er 907 milljóna króna niðurfærsla á eignarhlut bankans í United Silicon en félagið var skilgreint sem hlutdeildarfélag hluta ársins. Til samanburðar hafði hagnaður af sölu eignarhlutar samstæðunnar í Bakkavor Group Ltd. jákvæð áhrif á árinu 2016.
Aðrar rekstrartekjur námu 2.927 milljónum króna, samanborið við 3.203 milljónir króna á árinu 2016. Jákvæðar matsbreytingar á fjárfestingareignum hafa áhrif á árinu 2017 en á árinu 2016 má í meira mæli rekja góða afkomu til hagnaðar af sölu eigna.
Rekstrarkostnaður
Rekstrarkostnaður nam samtals 29.961 milljónum króna, samanborið við 30.540 milljón króna árið 2016. Kostnaðarhlutfall var 56,1% samanborið við 56,0% á árinu 2016. Hækkun er á rekstrarkostnaði, samanborið við fyrra ár, meðal annars vegna innkomu Varðar sem dótturfélags í lok síðasta árs og aukinna umsvifa Valitor erlendis. Á móti hækkun á rekstrarkostnaði kemur bakfærsla á skuldbindingu bankans við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta að fjárhæð 2.669 milljónir króna en bankinn fékk staðfestingu þess efnis að sjóðurinn muni ekki innheimta þá kröfu. Kostnaður sem hlutfall af eignum nam 2,7% á árinu 2017, samanborið við 3,0% á árinu 2016.
Laun og launatengd gjöld námu 17.189 milljónum króna og hækkuðu um 3% frá fyrra ári. Hækkunina má einkum rekja til kaupa á dótturfélaginu Verði undir lok árs 2016 og fjölgunar starfsfólks í alþjóðlegri starfsemi dótturfélagsins Valitor. Reiknuð meðallaun starfsfólks samstæðunnar hafa lækkað um tæplega 1% milli ára en á sama tíma hækkaði launavísitala um tæp 7%. Ástæða þessa er m.a. breytt samsetning starfsfólks með nýjum dótturfélögum og styrking krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, en hluti starfsemi Valitor, stærsta dótturfélags bankans, fer fram erlendis. Fjöldi stöðugilda hjá samstæðunni var 1.284 í árslok sem er hækkun um 45 stöðugildi frá fyrra ári. Aukninguna má einkum rekja til fjárfestinga í alþjóðlegri starfsemi Valitor, m.a. með kaupum á nýjum félögum í Bretlandi. Fækkun stöðugilda heldur áfram í móðurfélaginu og kemur einkum til vegna aukinnar útvistunar verkefna, til dæmis á sviði upplýsingatækni, og áhrifa stafrænna lausna og aukinnar sjálfvirkni sem bankinn hefur lagt áherslu á.
Annar rekstrarkostnaður var 12.772 milljónir króna og lækkar um 8% frá 2016. Lækkunin skýrist, eins og áður sagði, einkum af bakfærslu skuldar að fjárhæð 2.669 milljónir króna við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Á móti kemur hækkun á öðrum rekstrarkostnaði vegna innkomu Varðar í samstæðuna, kostnaður við aukin umsvif alþjóðlegrar starfsemi Valitor og aukinn kostnaður við upplýsingatækni, en bankinn úthýsti að hluta rekstri tölvukerfa sinna til Origo (áður Nýherji) í byrjun ársins 2017.
Hrein virðisbreyting var jákvæð sem nam 186 milljónum króna, samanborið við 7.236 milljónir króna 2016. Uppgreiðsla eldri íbúðalána hjá bankanum og greiðslur tengdar nauðasamningum sem og lokagreiðslur vegna uppgjörs slitabúa þar sem lán höfðu áður verið niðurfærð hjá bankanum höfðu jákvæð áhrif á hreina virðisbreytingu á árinu. Á móti kemur gjaldfærsla vegna varúðarniðurfærslu á lánveitingu til United Silicon að fjárhæð 2.962 milljónir króna.
Tekjuskattur nam 5.806 milljónum króna, samanborið við 6.631 milljón króna árið 2016. Tekjuskattur, eins og hann er settur fram í ársreikningi, samanstendur af 20% tekjuskatti af hagnaði og 6% sérstökum fjársýsluskatti sem lagður er á hagnað fjármálafyrirtækja umfram einn milljarð króna. Virkt tekjuskattshlutfall er 28,4% samanborið við 23,4% árið 2016. Hið háa tekjuskattshlutfall á árinu má m.a. rekja til þess að afkoma móðurfélagsins vegur þyngra nú í heildarafkomu en hún gerði á árinu 2016 og bankinn greiðir sérstakan viðbótarskatt á hagnað yfir 1 milljarði króna. Til viðbótar við ofangreinda skatta af afkomu greiðir bankinn bankaskatt, sem er 0,376% á skuldir umfram 50 milljarða króna hjá fjármálafyrirtækjum og síðan er greiddur 5,5% fjársýsluskattur af launum starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samantekt af ofangreindum sköttum má sjá á myndinni hér fyrir neðan.
Efnahagsreikningur
Heildareignir samstæðu Arion banka jukust um 11% frá árslokum 2016. Einkum má rekja hækkunina til aukningar á sjóði og innstæðum hjá Seðlabanka Íslands og lána til viðskiptavina en einnig aukast lán til lánastofnana, einkum vegna aukins lausafjár.
Sjóður og innstæður hjá Seðlabanka Íslands námu 139.819 milljónum króna í árslok, samanborið við 87.634 milljónir króna í árslok 2016. Aukninguna má einkum rekja til aukinna innlána, einkum á viðskiptabankasviði en einnig endurspeglast ný lántaka bankans á árinu í mjög sterkri lausafjárstöðu.
Lán til viðskiptavina námu 765.101 milljónum króna í árslok 2017, sem er 7,4% aukning frá áramótum. Lán til fyrirtækja hafa aukist um 6,7% á árinu, einkum tengt fasteignum og flutningum. Lán til einstaklinga jukust um 8,3% á árinu, nær eingöngu íbúðalán, þrátt fyrir harða samkeppni á þeim markaði frá lífeyrissjóðum.
Lánasafn samstæðunnar er vel dreift. Tæplega helmingur þess eru lán til einstaklinga og ríflega helmingur er til fyrirtækja í hinum ýmsu atvinnugreinum og er skiptingin í takt við samsetningu íslenska efnahagsumhverfisins.
Verðbréfaeign nam 109.448 milljónum króna í árslok 2017, samanborið við 117.456 milljónir króna í árslok 2016. Samsetning verðbréfaeignar breytist nokkuð þar sem hlutabréf hafa verið seld eins og t.d. allir eignarhlutir bankans í Fasteignafélaginu Reitum hf. og Símanum hf. en á móti hefur eign í erlendum lausafjársjóðum aukist verulega, sem má rekja til lausafjárstýringar bankans.
Skuldir og eigið fé
Skuldir samstæðu Arion banka hækka nokkuð frá áramótum sem rekja má til hækkunar á innlánum og nýrrar lántöku. Eigið fé breytist fyrst og fremst vegna afkomu ársins 2017.
Innlán frá viðskiptavinum námu 462.161 milljón króna í árslok samanborið við 412.064 milljónum í árslok 2016, sem er aukning um ríflega 12%. Aukningin er einkum tilkomin vegna aukinna innlána hjá viðskiptabankasviði.
Lántaka bankans nam 384.998 milljónum króna í árslok. Arion banki gaf út 200 milljóna evru skuldabréf í janúar og bætti þar með við fimm ára útgáfu sína frá því í nóvember 2016, sem er nú upp á 500 milljónir evra. Sú útgáfa var að hluta notuð til að greiða niður skuldabréf í eigu Kaupþings, en skuldabréfið var greitt að fullu seinna á árinu. Í júní gaf bankinn út 300 milljóna evru skuldabréf til þriggja ára á kjörum sem jafngilda 88 punktum yfir millibankavöxtum. Hluti útgáfunnar var nýttur til að borga til baka 100 milljónir evra af skuldabréfi með gjalddaga 2018. Þá gaf bankinn út átta minni útgáfur erlendis upp á samtals 19,6 milljarða króna í norskum og sænskum krónum. Bankinn hélt einnig áfram útgáfu sértryggðra skuldabréfa á íslenska markaðnum og gaf út 29,9 milljarða króna á árinu 2017.
Eigið fé hluthafa bankans nam 225.605 milljónum króna í árslok 2017 samanborið við 211.212 milljónum króna í lok árs 2016. Hækkunin skýrist nær alfarið af afkomu ársins. Engin arðgreiðsla var á árinu 2017. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 hjá bankanum nam 23,6% í árslok samanborið við 26,1% í árslok 2016. Lækkunin er tilkomin vegna fyrirhugaðrar arðgreiðslu og kaupa á eigin bréfum, sem samþykkt var á hluthafafundi Arion banka 12. febrúar sl. og framkvæmd verður á næstu vikum. Án þeirrar ráðstöfunar hefði hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 verið 26,8%. Eiginfjárhlutföll og lausafjárhlutföll bankans eru engu að síður sterk og vel fyrir ofan lögbundin lágmörk og viðmið útgefin af eftirlitsaðilum.