Þó að hægt hafi á hagvexti á árinu 2017 blés engu að síður byrlega í segl þjóðarskútunnar. Innlend eftirspurn var á miklu skriði, verðbólga var undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og áfram dró úr atvinnuleysi. Aukin umsvif innanlands endurspegluðust í örum innflutningsvexti og var framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar neikvætt. Þrátt fyrir það var talsverður afgangur af utanríkisviðskiptum, en aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn sótt landið heim. Húsnæðisverð hækkaði skarpt á árinu, enda hefur fjárhagsstaða heimilanna styrkst verulega, vextir hafa lækkað og framboðsskortur sett svip sinn á markaðinn. Veigamikil skref voru stigin í átt að frjálsu flæði fjármagns þegar fjármagnshöft voru að mestu afnumin og stór hluti aflandseigna leystur út. Áhættuþættir eru þó alltaf til staðar, en þeir helstu snúa að raungengi krónunnar og versnandi samkeppnisstöðu þjóðarbúsins, einkum ferðaþjónustunnar sem hefur fest sig í sessi sem undirstöðuatvinnugrein. Þá gætir vaxandi spennu á vinnumarkaðnum nú þegar mikilvægar kjaraviðræður ganga í garð.
Hægir á hagvexti
Töluverður kraftur var í hagkerfinu árið 2017, sem jafnframt var sjöunda árið á yfirstandandi hagvaxtarskeiði, þó að hægt hafi á hagvexti samanborið við árið áður. Líkt og undanfarin ár var hagvöxturinn drifinn áfram af innlendri eftirspurn, þá fyrst og fremst einkaneyslunni sem var á miklu flugi. Þáttaskil urðu í samsetningu fjárfestingar þegar íbúðafjárfesting tók við keflinu af atvinnuvegafjárfestingu, sem hafði verið driffjöðrin í vexti fjárfestinga undanfarin ár. Engu að síður hægði verulega á vexti fjárfestingar á árinu og sama má segja um vöxt útflutnings. Þrátt fyrir enn eitt metárið í komum erlendra ferðamanna til landsins var framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar neikvætt þar sem innflutningur jókst umfram útflutning. Þó að útlit sé fyrir að áfram hægi á vexti hagkerfisins árið 2018 eru efnahagshorfur hér á landi engu að síður mjög góðar samanborið við önnur þróuð ríki.
*Fyrstu 9 mánuðir ársins
Fasteignamarkaðurinn hlutskarpastur af eignamörkuðum
Innlendir eignamarkaðir áttu misjöfnu gengi að fagna á árinu og átti innlendur hlutabréfamarkaður fremur erfitt uppdráttar annað árið í röð. Þrátt fyrir nokkuð kröftuga byrjun tók að halla undan fæti á síðari hluta ársins og fór svo að úrvalsvísitala aðallista Nasdaq Ísland hækkaði um 6% milli ára. Viðskipti með hlutabréf héldu áfram að aukast á árinu þó að heldur lágstemmdari taktur sé kominn í þróunina samanborið við undanfarin ár. Í fyrsta skipti í sex ár var ekkert félag tekið til viðskipta á aðallista Nasdaq Ísland, heldur þvert á móti fækkaði félögum um eitt þegar Össur hvarf af markaðnum undir lok árs. Á First North markaðnum var ein skráning þegar Klappir Grænar Lausnir hf. var tekið til viðskipta í september.
Fregnir af hækkun húsnæðisverðs voru fyrirferðarmiklar á árinu enda fór árstakturinn á höfuðborgarsvæðinu í 23,5% á vormánuðunum. Gríðarleg kaupmáttaraukning, lækkun á vöxtum íbúðalána og aukin lýðfræðileg eftirspurn eru allt þættir sem stutt hafa rækilega við markaðinn að undanförnu. Þá hefur framboðshliðin ekki tekið við sér sem skyldi og skortur á íbúðum sett svip sinn á markaðinn, sem styður enn frekar við húsnæðisverð. Eftir því sem leið á árið hægði á hækkunartaktinum og var hann kominn í 15% undir lok árs. Verulegt byggingarmagn er í pípunum og ýmis teikn á lofti um að meiri kraftur sé að færast í íbúðafjárfestingu, sem bendir til þess að markaðurinn sé að leiðrétta sig og leita í nýtt jafnvægi.
Fjárhagsleg skilyrði heimila héldu áfram að batna á árinu samhliða hækkun eignaverðs. Ólíkt því sem var fyrir tíu árum síðan eru verðhækkanirnar núna að mestu leyti skýrðar af tekjuaukningu en ekki ósjálfbærum skuldavexti. Þannig hefur útlánavöxtur verið hófstemmdur og er ennþá undir hagvexti, þrátt fyrir miklar eignaverðshækkanir.
Áframhaldandi spenna á vinnumarkaði
Staðan á vinnumarkaði ber þess merki að enn þá sé spenna í þjóðarbúskapnum og að hagkerfið starfi um og yfir fullri framleiðslugetu. Atvinnuleysi mældist að meðaltali um 2,8% árið 2017, og er þar af leiðandi komið talsvert undir meðaltal sitt, og jafnframt undir það atvinnuleysisstig sem Seðlabankinn telur samræmast stöðugri verðbólgu. Mæld atvinnuþátttaka gaf aftur á móti lítillega eftir á árinu, sem er á skjön við aðrar vinnumarkaðstölur, og má líklega að einhverju leyti rekja til úrtaksvanda.
Engu að síður er margt sem bendir til þess að hægt hafi á vexti vinnuaflseftirspurnar, s.s. hægari fjölgun starfa. Þá hefur hlutfall fyrirtækja sem búa við skort á vinnuafli lækkað og hið sama má segja um hlutfall fyrirtækja sem sjá fram á fjölgun starfsmanna. Í alþjóðlegum samanburði eru hlutföllin þó enn þá há og enn eru fleiri fyrirtæki sem hafa í huga að fjölga starfsfólki frekar en fækka. Hingað til hefur verulegur innflutningur vinnuafls, sérstaklega á liðnu ári, létt á þrýstingi á innlenda framleiðsluþætti og haldið aftur af launahækkunum.
Atvinnuvegafjárfesting gefur eftir, íbúðafjárfesting gefur í
Líkt og áður sagði urðu ákveðin þáttaskil í samsetningu fjárfestingar á árinu. Verulega hægði á vexti atvinnuvegafjárfestingar en hún hefur verið dráttarklárinn í fjárfestingavexti undanfarinna ára. Á sama tíma hefur íbúðafjárfesting spýtt í lófana eftir ládeyðu eftirhrunsáranna og stóð hún undir bróðurparti fjárfestingavaxtarins á árinu, enda hvatinn til nýbyggingar til staðar eftir miklar hækkanir húsnæðisverðs. Þá tók fjárfesting hins opinbera hressilega við sér eftir að hafa setið á hakanum undanfarin ár og var nýtt vaxtarmet slegið á þriðja ársfjórðungi.
Þrátt fyrir að hægt hafi á fjárfestingavextinum var þetta engu að síður annað árið í röð sem fjárfesting fór yfir langtímameðaltal sitt sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þetta eru jákvæð tíðindi fyrir hagkerfið í heild sinni og skapar sterkari grundvöll fyrir hagvöxt og tekjuöflun í framtíðinni.
*Fyrstu 9 mánuðir ársins
Þjóð úr höftum
Veigamikil skref voru stigin í átt að fullri losun fjármagnshafta á árinu þegar öll fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði voru afnumin og fjármagnsflæði til og frá landinu gefið frjálst. Eftir standa þó varúðarreglur vegna vaxtamunarviðskipta og takmarkanir á afleiðuviðskipti. Þá keypti Seðlabanki Íslands stóran hluta eftirstandandi aflandskrónueigna svo aðeins lítill hluti situr eftir í hagkerfinu. Innlendir aðilar voru frelsinu fegnir og jukust gjaldeyrisinnlán og erlendar fjárfestingar þeirra allverulega.
Eftir samfelldan styrkingafasa árið áður minnti krónan á duttlunga sína árið 2017. Í kjölfar sjómannaverkfallsins í upphafi árs og haftalosunar stuttu seinna jukust sveiflur í gengi krónunnar til muna. Sumarstyrkingin sem margir væntu breyttist í sumarveikingu og fór svo að krónan lauk árinu á svipuðum stað og hún hóf það. Ýmislegt átti hér hlut að máli, s.s. losun fjármagnshafta, aukin ásókn í áhættuvarnir, stóraukinn innflutningur og hægari útflutningsvöxtur. Þá breytti Seðlabankinn um stefnu um mitt ár og hélt sig til hlés á gjaldeyrismarkaði í ljósi þess að forðasöfnun er ekki lengur talin nauðsynleg og yfirlýst markmið með inngripum því aðeins að koma í veg fyrir óhóflegar gengissveiflur.
Við upphaf árs hækkaði matsfyrirtækið S&P lánshæfiseinkunn ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar vegna sterkrar erlendrar stöðu á meðan Fitch Ratings breytti horfunum í jákvæðar. Í kjölfar haftalosunar hækkaði S&P lánshæfiseinkunn ríkissjóðs aftur, í þetta sinn bæði langtíma- og skammtímaeinkunnir. Fitch Ratings hækkaði síðan langtímalánshæfiseinkunn ríkissjóðs tvívegis á síðari hluta ársins vegna batnandi ytri stöðu þjóðarbúsins, skuldalækkunar hins opinbera og sterks hagvaxtar. S&P og Fitch meta lánshæfi ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar A, á meðan Moody‘s metur lánshæfiseinkunnina A3 fyrir langtímaskuldbindingar. Allir matsaðilar telja horfur stöðugar.
Samkvæmt endurmati á fjárlögum fyrir árið 2017 mun afkoma ríkissjóðs nema tæplega 50 ma.kr. á árinu, sem er nokkuð meiri afgangur en lagt var upp með í fjárlögum og skýrist nær alfarið af kröftugri innlendri eftirspurn en upphaflega var gert ráð fyrir og þar með styrkari skattstofnum. Eftir töluvert umrót á pólitíska sviðinu fór svo að tvö fjárlagafrumvörp voru lagð fram að hausti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem lagt var fram undir lok árs mun draga úr rekstrarafgangi ríkissjóðs árið 2018 og aðhald í ríkisrekstri slakna. Engu að síður er áætlað að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu haldi áfram að lækka og verði komnar niður fyrir lögboðið hámark, m.v. skuldareglu nýrra laga um opinber fjármál, í lok árs 2018.
Sterkt raungengi dregur úr viðskiptaafgangi
Á árunum eftir fjármálahrunið studdi lágt raungengi við útflutningsgreinar Íslands. Á síðustu tveimur árum hefur þróunin snúist við og var raungengið mjög hátt árið 2017, eða að meðaltali tæpum 12% hærra en árið áður. Er svo komið að Ísland er orðið eitt dýrasta land í heimi, hvort sem litið er til verðlags eða launa, sem dregur úr samkeppnishæfni þjóðarbúsins.
Innflutningsvöxtur á árinu dró dám af háu raungengi og stórauknum kaupmætti og jókst bæði vöru- og þjónustuinnflutningur mikið. Á sama tíma hægði á vexti útflutnings, en svo virðist sem ferðaþjónustan sé komin yfir mesta vaxtarskeiðið, að minnsta kosti í bili. Þá stóð sjómannaverkfallið í upphafi árs vöruútflutningsvexti fyrir þrifum. Á undanförnum árum hefur vöruskiptahallinn farið ört vaxandi og nam hann um 170 ma.kr. árið 2017, samanborið við 100 ma.kr. árið áður. Nokkuð hefur því dregið úr afgangi af viðskiptum við útlönd, þó að hann sé enn þá verulegur.
*Fyrstu 9 mánuðir ársins
Árið 2017 var enn eitt metárið í komum erlendra ferðamanna, en alls lögðu tæpar 2,2 milljónir manna leið sína til landsins, sem samsvarar tæpri fjórðungsaukningu frá árinu áður. Í fljótu bragði er því ekki að sjá að sterkt raungengi sé orðið dragbítur á ferðaþjónustuna, sem er orðin mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar og stóð undir 45% af útflutningstekjum þjóðarinnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Ýmislegt bendir þó til þess að ferðaþjónustan sé farin að lækka flugið og tekið sé að hægja á vextinum, svo sem hægari vöxtur erlendrar kortaveltu hér á landi og styttri dvalartími. Þannig hefur sterkt gengi krónunnar haft áhrif á neyslumynstur erlendra ferðamanna þó að erfitt sé að greina áhrifin í fjöldatölum enn sem komið er.
Verðbólga undir verðbólgumarkmiði
Árið 2017 var fjórða árið í röð sem verðbólgan hélst undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þrátt fyrir verulegar húsnæðisverðshækkanir fór ársverðbólgan aldrei yfir 2% og mældist að meðaltali 1,8% árið 2017. Sé húsnæðisliðurinn undanskilinn mældist 2,2% verðhjöðnun að meðaltali yfir árið. Sterk króna og aukin samkeppni héldu aftur af innlendum verðbólguþrýstingi og vógu á móti húsnæðisverðshækkunum. Töluverð óvissa er um verðbólguhorfur komandi mánaða og missera nú þegar áhrif gengisstyrkingar eru tekin að fjara út og kjarasamningar á næsta leiti.
Seðlabankinn hélt vaxtalækkunarfasa sínum áfram og lækkaði meginvexti sína um 0,75 prósentustig á árinu í þremur skrefum, fyrst í maí, svo júní og að lokum í október. Meginvextir bankans stóðu því í 4,25% um áramót.