Efnahagslíf og fjármálakerfi Íslands hefur þróast með jákvæðum hætti á undanförnum árum. Hagvöxtur á Íslandi hefur verið vel umfram meðalhagvöxt helstu nágrannalanda og aðrar helstu hagstærðir hafa þróast með hagfelldum hætti. Stjórnvöld tóku mið af þessu er síðustu stóru skrefin í afnámi fjármagnshafta voru tekin á árinu 2017. Í upphafi árs 2018 var íslenska krónan skráð á ný hjá Seðlabanka Evrópu sem segja má að sé táknrænt fyrir þá jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað á síðustu tæpu tíu árum. Arion banki hefur notið góðs af því að starfa í þessu kraftmikla og vaxandi hagkerfi og nýtur sterkrar stöðu á sínum mörkuðum. Bankinn hefur tekið afgerandi forystu á Íslandi þegar kemur að því að aðlaga fjármálaþjónustu að kröfum nútímans og árangurinn er eftir því.
Mikilvæg tímamót er fjármagnshöft voru afnumin
Eitt skýrasta merkið um þann efnahagsbata sem hefur átt sér stað á Íslandi á undanförnum árum eru lokaskref til afnáms fjármagnshafta, sem stigin voru á árinu 2017. Höftin heyra nú í öllum aðalatriðum sögunni til. Þær fáu takmarkanir sem eftir standa snúa fyrst og fremst að fjármagnsinnflæði til að sporna gegn vaxtamunarviðskiptum annars vegar og spákaupmennsku í afleiðuviðskiptum hins vegar. Sú staðreynd að áhyggjur snúa fremur að fjármagnsinnflæði en útflæði segir allt sem segja þarf um efnahagsbatann á Íslandi á undanförnum árum.Breytingar á eignarhaldi
Eignarhald Arion banka tók breytingum á árinu 2017 en bankinn hafði verið í óbreyttu eignarhaldi frá árinu 2010 þegar slitabú Kaupþings, í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil, eignaðist 87% hlut í bankanum og íslenska ríkið 13%. Í marsmánuði seldi Kaupþing tæp 30% í Arion banka til þriggja fjárfestingarsjóða og fjárfestingarbankans Goldman Sachs. Fjárfestingarsjóðirnir Attestor Capital og Taconic Capital Advisors voru þar stærstir og eignuðust hvor um sig tæp 10% í bankanum. Attestor Capital jók síðar hlut sinn lítillega eftir að Fjármálaeftirlitið mat sjóðinn hæfan til að fara með virkan eignarhlut. Taconic Capital Advisors hefur einnig verið metinn hæfur af Fjármálaeftirlitinu en eftirlitið lítur svo á að Taconic og Kaupskil séu í samstarfi og gilda því sömu skilyrði um eignarhald Taconic Capital og gilda um Kaupþing.Frekari breytingar á eignarhaldi í farvatninu
Frekari breytingar á eignarhaldi Arion banka urðu í upphafi árs 2018 þegar rúm 2,5% í bankanum voru seld til 24 íslenskra fjárfestingarsjóða í rekstri hjá fjórum af stærstu sjóðastýringarfyrirtækjum landsins. Jafnframt juku tveir hluthafar bankans hlut sinn í bankanum, Attestor Capital um 2% og Goldman Sachs um 0,8%. Auk þess ákváðu Kaupskil að nýta kauprétt sinn á 13% hlut íslenska ríkisins í bankanum. Kauprétturinn byggir á samningi við íslenska ríkið frá 3. september 2009. Er íslenska ríkið því farið úr hluthafahópi bankans. Samtímis keypti Arion banki til baka hlutabréf í bankanum sem nema 9,5% hlutafjár.
Á árinu 2018 verða mögulega frekari breytingar á eignarhaldi bankans ef Kaupþing dregur frekar úr sínum hlut.
Á árinu 2018 verða mögulega frekari breytingar á eignarhaldi bankans ef Kaupþing dregur frekar úr sínum hlut. Skráning bankans á markað, á Íslandi sem og erlendis, er einn af þeim kostum sem í skoðun eru. Engar ákvarðanir hafa þó verið teknar að svo stöddu.
Arion banki er í dag sá eini af stóru bönkunum þremur á Íslandi sem ekki er í ríkiseigu. Engu að síður er það svo, vegna umsaminna stöðugleikaskilyrða milli íslenska ríkisins og Kaupþings, að það er fyrst og fremst íslenska ríkið sem mun njóta góðs af sölu Kaupþings á hlutabréfum í Arion banka þar sem langstærstur hluti söluandvirðisins mun renna til ríkisins. Stjórn og hluthafar Arion banka leggja mikla áherslu á að vandað sé til verka þegar kemur að frekari sölu á hlutum í bankanum. Við gerum okkur vel grein fyrir því að horft verður til reynslu Arion banka, með einkavæðingu annarra fjármálafyrirtækja í huga.
Íþyngjandi skattur á innlán og aðrar skuldir banka
Þrátt fyrir mikinn efnahagslegan bata á Íslandi hafa stjórnvöld viðhaldið séríslenskum sköttum sem settir voru þegar erfiðleikar landsins voru hvað mestir. Um er að ræða afar íþyngjandi skatta fyrir fjármálafyrirtæki sem skerða samkeppnisstöðu þeirra og bitna á viðskiptavinum.
Í þessu sambandi vil ég nefna tvennt sérstaklega. Annars vegar er það hinn svokallaði bankaskattur sem er 0,376% skattur á fjármögnun banka. Það sem gleymist í þessari umræðu er að innlán viðskiptavina eru stærsti þáttur fjármögnunar íslenskra fjármálafyrirtækja. Það er deginum ljósara að þessi skattbyrði minnkar svigrúm bankans og skerðir þau kjör sem bankar geta boðið viðskiptavnum, bæði hvað varðar inn- og útlán. Skatturinn torveldar bönkum jafnframt samkeppni við þá erlendu banka sem bjóða stærstu fyrirtækjum landsins fjármögnun í erlendum myntum.
Hins vegar vil ég nefna samkeppni við lífeyrissjóði á íbúðalánamarkaði. Engar eiginfjárkröfur eru gerðar til lífeyrissjóða og þeir greiða enga skatta. Því má ljóst vera að bankar standa höllum fæti í slíkri samkeppni. Það er mikilvægt að íslensk stjórnvöld horfi til þess að endurskoða þessa skattheimtu sem á endanum bitnar á þeim kjörum sem bankar eins og Arion banki geta boðið sínum viðskiptavinum. Þrátt fyrir erfiða samkeppnisstöðu hefur Arion banki náð góðum árangri á árinu þegar kemur að veitingu íbúðalána og er lykillinn að þeim árangri gæði þjónustunnar með tilkomu nýrra stafrænna lausna sem viðskiptavinir bankans hafa tekið opnum örmum. Þetta er ekki síst ánægjulegt þegar haft er í huga hve mikilvægur íbúðalánamarkaðurinn er Arion banka, enda er bankinn stærsti lánveitandi íbúðalána að Íbúðalánasjóði undanskildum.
Góð þjónusta veitir samkeppnisforskot
Miklar breytingar eru að eiga sér stað á sviði fjármálaþjónustu um heim allan. Tæknin er einn af þeim kröftum sem drífa þá þróun áfram. Oft er talað um Fintech, eða fjártækni, til að ná utan um alla gróskuna í fjármálaþjónustu og þróun nýrra tæknilausna. Fjölmörg fyrirtæki – stór og smá, ný og gömul – hafa stigið fram og bjóða fjármálaþjónustu í nýjum búning, t.d. með aðstoð smáforrita.
Við hjá Arion banka viljum vera fremst á Íslandi þegar kemur að nýjungum og stafrænum lausnum sem auðvelda viðskiptavinum okkar lífið.
Hver banki þarf að gera upp við sig hvernig hann hyggst takast á við samkeppni úr nýjum áttum. Við hjá Arion banka viljum vera fremst á Íslandi þegar kemur að nýjungum og stafrænum lausnum sem auðvelda viðskiptavinum okkar lífið. Til að vera snör í snúningum og samkeppnishæf við minni og kvikari fyrirtæki tókum við upp verklag í anda viðskiptahraðla og er hver ný stafræn lausn unnin í slíkum hraðli. Á árinu 2017 kynnti Arion banki tíu nýjar stafrænar lausnir, fleiri en nokkur annar íslenskur banki. Forysta okkar á þessu sviði er skýr og lætur árangurinn ekki á sér standa en hans verður vart í aukinni ánægju viðskiptavina, aukinni eftirspurn eftir þjónustu okkar og aukinni skilvirkni innan bankans.
Umfangsmiklar breytingar á regluverki
Breytingar á regluverki fjármálafyrirtækja hafa einnig mikil áhrif á starfsemi og þróun fjármálafyrirtækja. Má í þessu sambandi nefna regluverk á borð við MiFID II, GDPR og PSD II. Almennt má segja að markmið breytinganna sé að almenningi bjóðist betri bankaþjónusta. Tilskipun eins og PSD II styrkir til að mynda stöðu fjártæknifyrirtækja og veitir þeim aðgang að upplýsingum sem stærri og rótgrónari fjármálafyrirtæki búa yfir.
Auðvitað kallar innleiðing nýrra reglna sem eru jafnumfangsmiklar og raun ber vitni á mikla vinnu. Það þarf margar hendur til að vinna það verk. Við hjá Arion banka leggjum ríka áherslu á að standa vel að verki, þar sem það er grunnforsenda í öllum okkar störfum að hlýta lögum og reglum. Við lítum á þessar miklu breytingar sem tækifæri til að veita viðskiptavinum okkar enn betri bankaþjónustu.
Arion banki er að fullu fjármagnaður með innlánum og á markaði
Sá áfangi náðist á árinu að öll fjármögnun sem snéri að stofnun bankans var að fullu uppgreidd, fjármögnun sem var frá hluthöfum bankans og stjórnvöldum. Arion banki er nú að fullu fjármagnaður með innlánum og á markaði og byggir fjármögnunin á traustri fjárhagsstöðu bankans.
Arion banki er í dag reglulegur útgefandi skuldabréfa á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Á árinu 2017 gaf bankinn út skuldabréf á alþjóðlegum mörkuðum sem nema meira en 600 milljónum evra, auk sértryggðra skuldabréfa og víxla á Íslandi. Alþjóðlegir fjárfestar líta í ríkari mæli til bankans sem fjárfestingarkosts og hefur þróun bréfa bankans á eftirmarkaði verið afar jákvæð sem sýnir trú fjárfesta á bankanum. Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poors hækkaði lánshæfismat bankans á árinu úr BBB í BBB+ með stöðugum horfum.
Í takt við það aðgengi sem Arion banki hefur í dag að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum og breytingar á eignarhaldi bankans, horfir bankinn til þess að gera breytingar á fjármagnsskipan sinni á næstu árum og er m.a. horft til útgáfu víkjandi skuldabréfa.
Mikil ábyrgð
Því fylgir mikil ábyrgð að starfrækja kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki eins og Arion banki er á Íslandi og um þá ábyrgð erum við vel meðvituð. Arion banki hefur alla tíð lagt áherslu á að takast á við hvert verkefni – stórt sem smátt – af ábyrgð.
Stjórn Arion banka samþykkti nýja stefnu á sviði samfélagsábyrgðar í lok árs 2016 og unnið var að innleiðingu hennar á árinu 2017. Við innleiðingu stefnu bankans í samfélagsábyrgð leggjum við ríka áherslu á ábyrgð allra sem starfa hjá bankanum og hvernig hver og einn getur látið gott af sér leiða og tekið ákvarðanir á ábyrgan hátt með hagsmuni ólíkra haghafa að leiðarljósi.
Bankinn gerðist aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI).
Á árinu var jafnframt unnið að stefnumótun í ábyrgum fjárfestingum og lánveitingum og er sú vinna vel á veg komin. Bankinn gerðist aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI). Með aðild sinni skuldbindur bankinn sig til að leggja áherslu á umhverfis- og samfélagsleg málefni auk góðra stjórnarhátta við mat á fjárfestingarkostum og við fjárfestingarákvarðanir.
Góður grunnur að byggja á
Á undanförnum árum hefur starfsfólk Arion banka, í góðu samstarfi við viðskiptavini bankans, byggt upp góðan banka. Menning bankans einkennist af metnaði til að gera betur í dag en í gær og taka opnum örmum þeim breytingum sem nú eiga sér stað á fjármálamarkaði. Starfsfólk Arion banka hefur sýnt að það ætlar sér að vera leiðandi þegar kemur að mótun fjármálaþjónustu framtíðarinnar.
Árið 2018 verður viðburðaríkt ár. Breytignar fela í sér tækifæri fyrir bankann – tækifæri sem ber að fanga og nýta.