Afkoma Arion banka á árinu 2017 var viðunandi en einskiptisatburðir settu nokkurn svip á afkomuna. Vöxtur var í grunntekjum bankans, tekjugrunnur bankans er sterkur og fjárhagslegur styrkur mikill. Afkoma ársins nam 14,4 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 6,6%. Eiginfjárhlutfall í árslok var 24,0% en 26,7% í árslok 2016. Lækkun eiginfjárhlutfalls kemur einkum til vegna 25 milljarða króna arðgreiðslu og kaupa á eigin bréfum sem samþykkt var á hluthafafundi 12. febrúar 2018. Þann 26. febrúar keypti Arion banki eigin bréf af Kaupskilum fyrir rúma 17 milljarða króna og mun bankinn greiða 8 milljarða króna í arð til hluthafa. Þrátt fyrir lækkun er eiginfjárstaða bankans sterk og vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Lækkun eiginfjár er í samræmi við markmið bankans um að haga eiginfjárhlutfalli sínu á þann veg að það verði í meira samræmi við erlenda og innlenda banka og er jafnframt liður í söluferli bankans sem gert er ráð fyrir að muni setja mark sitt á árið 2018.
Alhliða fjármálaþjónusta
Mikilvægur liður í stefnu Arion banka er að veita viðskiptavinum alhliða fjármálaþjónustu. Grunnstoðir starfseminnar eru fjórar: eignastýring, fjárfestingarbankastarfsemi, fyrirtækjaþjónusta og viðskiptabankaþjónusta, og nýtur bankinn sterkrar stöðu á þessum mörkuðum.
Um þessar mundir störfum við í blómlegu efnahagslífi og nýtur bankinn góðs af því, líkt og viðskiptavinir. Markmið okkar er að lánavöxtur sé almennt umfram vöxt í efnahagslífinu og sú varð raunin á árinu 2017 en heildarlán til viðskiptavina jukust um rúm 7% á árinu. Lán til fyrirtækja jukust um tæp 7% en lán til einstaklinga um rúm 8%. Gott jafnvægi er á milli lána til einstaklinga og fyrirtækja í lánabók bankans. Gæði lánabókar bankans aukast jafnt og þétt og í árslok 2017 var hlutfall vandræðalána aðeins 1,0%.
Samlegðaráhrif dótturfélaga
Dótturfélög bankans gegna mikilvægu hlutverki í þjónustuframboði bankans. Vörður tryggingar er nýtt félag í Arion banka samstæðunni en kaup bankans á félaginu gengu í gegn á árinu 2016. Tryggingar Varðar eru nú seldar í útibúum bankans og bindum við miklar vonir við það samstarf. Sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir, stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins, er mikilvægur samstarfsaðili eignastýringar Arion banka, sem er helsti söluaðili sjóða Stefnis. Áhersla Arion banka og þessara tveggja dótturfélaga er nær alfarið á innanlandsmarkað.
Þriðja dótturfélag Arion banka, greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor, nýtur nokkurrar sérstöðu í Arion banka samstæðunni þar sem tekjur þess koma að mestu frá starfsemi erlendis. Á árinu 2017 komu 70% tekna Valitor erlendis frá, en Valitor hefur vaxið mikið erlendis, bæði með kaupum á fjártæknifyrirtækjum og með innri vexti.
Spennandi tímar í fjármálaþjónustu
Það eru spennandi tímar í fjármálaþjónustu. Fjártæknifyrirtæki hasla sér völl og aðgengileiki og hraði fjármálaþjónustu eykst. Breytingar á regluverki, eins og PSD II, leggja auknar skyldur á banka og styrkja jafnframt stöðu nýrra fyrirtækja sem vilja ná fótfestu í fjármálaþjónustu.
Við erum vel í stakk búin til að breytast og þróast í takt við umhverfið en ekki síður að vera vaki breytinga á íslenskum fjármálamarkaði.
Við hjá Arion banka fögnum þessari þróun og höfum einsett okkur að verða leiðandi á Íslandi þegar kemur að nýjungum í fjármálaþjónustu og stafrænni þjónustu. Segja má að við höfum hafið undirbúninginn á árinu 2012 þegar innleiðing straumlínustjórnunar hófst og á árinu 2017 var þeim áfanga náð að allt starfsfólk bankans hefur hlotið þjálfun og fræðslu í aðferðafræði straumlínustjórnunar. Aðferðafræði straumlínustjórnunar hefur skilað okkur færni í að takast á við breytingar. Við erum vel í stakk búin til að breytast og þróast í takt við umhverfið en ekki síður að vera vaki breytinga á íslenskum fjármálamarkaði.
Þægileg bankaþjónusta í fyrirrúmi
Á árinu 2016 var sett á laggirnar nýtt teymi innan Arion banka sem starfar í anda straumlínustjórnunar og þeirra viðskiptahraðla sem bankinn hefur starfrækt síðan 2012, Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík. Hlutverk nýja teymisins er að endurhanna helstu vörur og þjónustu bankans frá grunni og koma fram með nýjar lausnir sem eru stafrænar frá upphafi til enda.
Móttökurnar hafa verið framar vonum og Arion banki tekið afgerandi forystu þegar kemur að framsæknum nýjungum í viðskiptabankaþjónustu.
Árangurinn hefur ekki látið á sér standa en bankinn hefur þegar kynnt vel á annan tug nýrra stafrænna lausna. Móttökurnar hafa verið framar vonum og Arion banki tekið afgerandi forystu þegar kemur að framsæknum nýjungum í viðskiptabankaþjónustu. Ný könnun staðfestir það en hún sýnir að 36% aðspurðra telja Arion banka vera fremsta bankann á Íslandi þegar kemur að stafrænum lausnum. Sá banki sem kom næstur var aðeins nefndur af tæplega 25% aðspurðra. Nýjar lausnir skila sér í betri þjónustu, auknum tekjum, aukinni skilvirkni og aukinni ánægju viðskiptavina. Meðal annars var horft til þessa þegar fjármálatímaritið Euromoney valdi Arion banka sem banka ársins á Íslandi árið 2017.
Sú lausn sem hefur vakið einna mesta athygli og ánægju meðal viðskiptavina er stafrænt greiðslumat og umsóknarferli fyrir íbúðalán sem er mun þægilegra og fljótlegra en áður. Markaðshlutdeild bankans þegar kemur að nýjum íbúðalánum jókst umtalsvert á árinu þrátt fyrir harða samkeppni á þeim markaði og er það fyrst og fremst vinsældum okkar nýju lausna að þakka. Íbúðalánamarkaðurinn skiptir okkur miklu en íbúðalán nema rétt rúmlega 40% af lánasafni bankans.
Ný hugsun nær til útibúa bankans
Nýtt útibú Arion banka í Kringlunni var opnað á árinu 2017 eftir gagngerar endurbætur. Nýja útibúið gefur góða innsýn í hvernig við sjáum fyrir okkur bankaútibú framtíðarinnar. Áhersla er á stafræna bankaþjónustu og í stað hefðbundinnar gjaldkeraþjónustu aðstoðar starfsfólk viðskiptavini við sjálfsafgreiðslu í nýjum hraðbönkum, netbanka eða öðrum stafrænum þjónustuleiðum. Þar er jafnframt veitt ráðgjöf í gegnum fjarfundarbúnað sem mælst hefur afar vel fyrir meðal viðskiptavina okkar. Útibúið er með lengri þjónustutíma en önnur bankaútibú hér á landi og er opið á sama tíma og önnur þjónusta í Kringlunni. Við munum áfram þróa útibúaþjónustu okkar byggt á reynslu af þessu nýja fyrirkomulagi í Kringlunni og viðbrögðum viðskiptavina.
Einskiptisatburðir setja mark á afkomu
Sá einskiptisatburður sem hafði hvað mest áhrif á afkomu ársins 2017 voru rekstrarerfiðleikar og gjaldþrot kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Niðurfærsla Arion banka á lánum og fjárfestingu í félaginu nam um 4 milljörðum króna að teknu tilliti til skattaáhrifa. Niðurfærslan er um 2% af eigin fé Arion banka og 0,5% af lánabók bankans.
Það stóð aldrei til að Arion banki yrði hluthafi í United Silicon en eftir því sem erfiðleikar félagsins jukust á árinu 2017 varð bankinn að stíga inn, m.a. með hlutafjáraukningu. Arion banki hefur náð samningum við skiptastjóra þrotabúsins og gengið að veðum bankans í félaginu. Markmið Arion banka er að gera nauðsynlegar úrbætur á verksmiðunni og selja hana eins fljótt og auðið er og því er jákvætt að við verðum vör við mikinn áhuga á kísilverksmiðjunni meðal alþjóðlegra aðila í kísiliðnaði.
Að starfa af ábyrgð í sátt við samfélagið
Við hjá Arion banka leggjum mikla áherslu á að sinna okkar störfum af ábyrgð og styðja vel við viðskiptavini og íslenskt efnahagslíf. Á árinu 2017 fór fram vinna við innleiðingu nýrrar stefnu bankans í samfélagsábyrgð sem samþykkt var af stjórn í árslok 2016. Við innleiðingu stefnunnar höfum við lagt höfuðáherslu á að starfsfólk bankans geri sér grein fyrir sinni ábyrgð og hvernig hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum með ólíka hagsmunaaðila bankans – viðskiptavini, starfsfólk, fjárfesta og samfélagið allt – í huga.
Á undanförnum árum höfum við lagt sérstaka áherslu á að miðla okkar sérþekkingu þegar kemur að nýsköpun og fjármálafræðslu. Á árinu 2017 voru haldnir fjölmargir fræðslufundir fyrir viðskiptavini um sparnað, lífeyrismál og fyrstu íbúðakaup svo dæmi séu tekin. Einnig fór viðskiptahraðallinn Startup Reykjavík fram í sjötta sinn og hefur Arion banki nú fjárfest í 80 sprotafyrirtækjum frá árinu 2012.
Í ársskýrslu Arion banka fyrir árið 2017 er nú í annað sinn ítarleg umfjöllun um samfélagsmál og eru ófjárhagslegum mælikvörðum gerð góð skil. Arion banki er í góðu samstarfi við íslenska nýsköpunarfyrirtækið Klappir Grænar Lausnir, sem starfar á sviði umhverfislausna. Samstarf fyrirtækjanna er víðtækt og aðstoðaði Arion banki m.a. við skráningu félagsins á First North markaðinn sem var eina nýskráningin hlutabréfa í kauphöll á árinu 2017.
Mikilvægt ár fram undan
Á árinu 2017 voru tekin fyrstu skrefin í söluferli Arion banka þegar Kaupskil, dótturfélag Kaupþings, seldi um 30% hlut í bankanum til þriggja alþjóðlegra fjárfestingarsjóða og fjárfestingarbankans Goldman Sachs. Frekari skref voru tekin í upphafi ársins 2018 þegar 24 innlendir fjárfestingarsjóðir í stýringu fjögurra sjóðastýringarfyrirtækja bættust í hluthafahópinn og tveir hluthafar bættu við sinn hlut, í sölu sem nam rúmum 5% af hlutafé bankans.
Það er jákvætt að hluthafahópur Arion banka þróist, verði breiðari og að innlendir aðilar bætist við hluthafahópinn.
Það er jákvætt að hluthafahópur Arion banka þróist, verði breiðari og að innlendir aðilar bætist við hluthafahópinn. Fjárfestingin sýnir trú á því starfi sem fram fer innan bankans og þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað. Mögulega munu frekari skref eiga sér stað á árinu 2018 og er skráning bankans á markað einn af þeim kostum sem í skoðun eru.
Horfur fram á veg eru góðar, bæði fyrir bankann og fyrir íslenskt efnahagslíf sem er þróttmikið um þessar mundir. Arion banki mun áfram þróa sína þjónustu með það í huga að auka þægindi viðskiptavina og er vel í stakk búinn til að taka þátt í þeirri innviðauppbyggingu sem er fram undan sem og öðrum þeim verkefnum sem viðskiptavinir bankans taka sér fyrir hendur.